Samskip Management Team (SMT) leggur fram 700 milljónir króna til að eiga áfram 90% hlut í flutningafyrirtækinu. Forstjóri Kjalar bendir á að varúðarniðurfærsla banka vegna stórra útlána þýði ekki að skuldbindingar lántekenda falli niður.
Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins leggur SMT fram um 700 milljónir króna til að eignast 90% hlut í Samskipum. Félagið var áður í eigu fjárfestingafélags Ólafs Ólafssonar, Kjalar.
Þeir sem standa að baki SMT eru Ólafur Ólafsson, sem er sagður leggja fram stærstan hlut upphæðarinnar, Hjörleifur Jakobsson, forstjóri Kjalar og stjórnarmaður Samskipa, Ásbjörn Gíslason, forstjóri Samskipa, Kristinn Albertsson, fjármálastjóri Samskipa, og Jens Nielsen, sem stýrir starfsemi Samskipa í Hollandi.
Samkvæmt lánabók Kaupþings námu skuldir Samskipa og Samskip Holding, eignarhaldsfélags flutningafyrirtækisins, samtals 38 milljónum evra. Það eru um 6,7 milljarðar króna á núvirði.
Ásbjörn Gíslason, forstjóri Samskipa, hefur sagt í Morgunblaðinu að engar afskriftir séu fyrirhugaðar á skuldum Samskipa. Forstjóri Kjalar segir umræðu um afskriftir á villigötum. Þótt Arion banki hafi fært niður kröfur af varúðarástæðum verði reynt að heimta þær til fulls af Kjalari.
Sjá nánar um þetta mál í Morgunblaðinu í dag.