Þóknanir sem VISA-korthafar þurfa að greiða þegar þeir nota debetkort í Evrópu - einnig á Íslandi - munu lækka segja samkeppniseftirlit í Evrópu. Þau segja að VISA í Evrópu hafi lagt til að gjaldið, sem bankar leggi á hverja færslu, verði lækkað í 0,2% af endanlegu verði vöru eða þjónustu.
Nýtt hámark eigi nú við allar kortafærslur innan evrópska efnahagssvæðisins, þ.e. í öllum 27 ríkjum Evrópusambandsins auk Íslands, Noregs og Liechtensteins.
Joaquin Almunia, sem fer með peningamál innan framkvæmdastjórnar ESB, segir að þetta muni efla skilvirkni fjármálakerfisins og verða bæði neytendum og smásölum til hagsbóta.
Mastercard reið á vaðið í apríl í fyrra. Tilgangurinn með þessu er að koma í veg fyrir að himinháar sektir verði lagðar á greiðslukortafyrirtækin fyrir að brjóta samkeppnislög.