Ekkert verður úr því að lagður verði á alþjóðlegur skattur á stærstu banka heims en viðræður um slíka skattlagningu runnu út í sandinn meðal leiðtoga helstu iðnríkja heims í Toronto í Kanada í dag. Á meðan leiðtogar tuttugu helstu iðnríkja heims ræða málin þá undirbúa mótmælendur sig fyrir utan fund þeirra þrátt fyrir mikla öryggisgæslu.
Gera þeir sem skipuleggja mótmælin ráð fyrir að 5-10 þúsund manns muni taka þátt í þeim.
Bretar, Frakkar og Þjóðverjar hafa sagt að þeir teldu að slík skattlagning muni draga úr líkum á of mikilli áhættusækni fjármálafyrirtækja. Um leið þá væri lagt í sjóð til þess að mæta áfallinu sem verður við næsta hrun.
Hins vegar eru þau ríki þar sem bankakerfið hrundi ekki í efnahagshruninu lítt hrifin af hugmyndinni. Enda telja þau að þeirra bankar beri litla sem enga ábyrgð á því sem gerðist. Meðal þeirra eru Kanada, Ástralía og nokkur önnur nýmarkaðsríki líkt og Brasilía og Indland og Mexíkó.