Engin þjóð heimsins notar meiri orku til þess að knýja áfram hagkerfi sitt en Kínverjar. Samkvæmt nýrri skýrslu Alþjóðaorkumálastofnunarinnar notuðu Kínverjar í fyrsta sinn í fyrra meiri orku en Bandaríkjamenn. Sérfræðingar telja þessa þróun verða til þess að áhrif stjórnvalda í Peking munu gæta í enn ríkara mæli á orkumörkuðum á komandi áratugum.
Samkvæmt breska blaðinu Financial Times þá samsvaraði nýting Kínverja í fyrra á orkugjöfum á borð kol, olíu, kjarnorku, jarðgas og vatnsaflsorku um ríflega 2 þúsund milljónum tonna af olíubrennslu. Þetta er fjórum sinnum meira en í Bandaríkjunum á sama tíma.
Orkunotkun Kínverja hefur vaxið gríðarlega undanfarin áratug. Financial Times segir að um aldamótin hafi Bandaríkjamenn notað tvöfalt meiri orku en Kínverjar og er því um verulega umbreytingu að ræða á stuttum tíma. Hinsvegar er bent á í umfjöllun blaðsins að þessi þróun skýrist að einhverju leyti að því að Bandaríkjamenn hafi náð betri árangri í orkunýtingu og sjálfbærni á sviði orkumála en Kínverjar auk þess hafði niðursveiflan í alþjóðahagkerfinu í fyrra mun meiri áhrif á efnahagslíf Bandaríkjanna en Kína. Enn sem komið er orkunýting á hvern íbúa mun meiri í Bandaríkjunum en í Kína.
Kolainnflutningur endurspeglar sennilega best hversu mikil stakkaskipti hafa átt sér stað í orkuþörf kínverska hagkerfisins. Kína er auðugt af kolum en þrátt fyrir það er búist við að innflutningur muni nema ríflega 100 milljónum tonna ár. Gangi það eftir mun kínverska hagkerfið taka við því japanska sem stærsti kolainnflytjandi heims. Kínverjar fluttu út kol í meira mæli en inn fyrir aðeins þrem árum.
Mikil orkuþörf kínverska hagkerfisins hefur haft mikil áhrif á allþjóðamál á undanförnum árum. Þannig hafa stjórnvöld í Peking reynt að auka ítök sín og áhrif í ríkjum á borð við Kasakstan og Súdan til þess að tryggja sér aðgengi að olíu og það sama gildir um önnur svæði sem Vesturlönd hafa haldið sig frá vegna ýmissa ástæðna. Kínversk stjórnvöld hafa ekki látið áhyggjur af stöðu mannréttinda eða önnur slík mál hindra sig við að tryggja aðgengi að mikilvægum hrávörum.