Afstaða hefur verið tekin til 22.576 krafna af um 28 þúsund, sem lýst var á hendur Kaupþingi. Þar af hafa 426 kröfur verið samþykktar, 13.605 kröfur samþykktar með breytingum, 4165 kröfum hafnað og engin afstaða verður tekin til 4380 krafna.
Þetta kom fram á kröfuhafafundi bankans í dag. Heildarkröfur, sem lýst var á hendur bankanum, námu 7316 milljörðum króna í lok síðasta árs. Að teknu tilliti til leiðréttingar og afturköllun krafna nam heildarfjárhæð krafna í byrjun júní 2010 6895 milljörðum króna.
Byggt á síðustu opinberu upplýsingum frá maí 2010 er upphæð forgangskrafna 1711 milljarðar króna en ágreiningur ríkir um stærstan hluta þeirra. Markmiðið er að ljúka afstöðu til krafna, þ.e. forgangs þeirra, fjölda og upphæða, fyrir kröfuhafafund slitastjórnar þann 3. desember.
Á fundinum í dag kom einnig fram, að um áramót voru heildareignir bankans áætlaðar 1579 milljarðar króna. Þar af var 791 milljarður veðsettur en nettó verðmat var 788 milljarðar króna. Að teknu tilliti til þekktra forgangskrafna voru nettó eignir 743 milljarðar króna og jukust um 214 milljarða króna eða 41% á árinu 2009.
Handbært fé nam 176 milljörðum í lok síðasta árs og jókst um 98 milljarða á síðasta ári eða um 126% þótt bankinn greiddi innstæðueigendum forgangskröfur að upphæð 58 milljarða á árinu 2009. Segir slitastjórn Kaupþings að aukning handbærs fjár sé aðallega til komin vegna útlána til viðskiptamanna að upphæð 88 milljarða króna, sölu bankans á dótturfélagi í Svíþjóð að upphæð 28 milljarða króna og sölu 5.5% hlut í norska tryggingafélaginu Storebrand fyrir 20 milljarða króna.
Á síðasta ári greiddi bankinn upp 26 lán að upphæð 40 milljarða króna. Vegið meðaltal á endurheimtum uppgreiddra og seldra lána á árinu 2009 nam 97%.
Skuldabréf og hlutabréf í eigu Kaupþings námu 38 milljörðum króna miðað í árslok og jukust um 12,5 milljarða króna eða um 48% á árinu 2009. Aukningin er aðallega til komin vegna markaðsbreytinga og að hlutafé hefur myndast vegna endurskipulagningarverkefna.