Kaupsýslumaðurinn Björgólfur Thor Björgólfsson fjallar á vef sínum í dag um frétt Stöðvar 2 frá því í gærkvöldi þar sem fjallað var um samkomulag sem Björgólfur Thor gerði við lánadrottna sína í júlí sl. Segir hann fréttina túlkaða á alla kanta í fjölmiðlum og á vefnum. Björgólfur segir að hann hafi fengið þær upplýsingar úr Landbankanum að engar málshöfðanir væru fyrirhugaðar gegn honum.
„Ég sé einnig að réttur Landsbankans til að lögsækja mig er að valda misskilningi. Hann er að sjálfsögðu til staðar. Hins vegar ræddi ég við bankann sem staðfesti að rannsóknir hefðu staðið yfir lengi af hálfu sérstaks rannsóknarteymis frá Deloitte í Bretlandi og kom fram að engar málshöfðanir væru fyrirhugaðar og heldur engin tilefni riftana á gjörningum. Hið sama gildir raunar um rannsókn PriceWaterhouseCoopers á starfsemi Straums Burðaráss, þar hafa engin tilefni fundist til riftunar samninga við mig, eins og skýrt var frá í fréttum í júní sl.," segir Björgólfur á vef sínum.