Óvissa um framtíð Eik Banka

Eik Banki
Eik Banki

Færeyingar eru margir órólegir vegna framtíðar Eik Banka í Færeyjum. Stjórnarformaður Finansiel Stabilitet, danskrar stofnunar sem tekið hefur yfir banka í vanda og tryggt innistæður, kom til Færeyja í síðustu viku og vöktu orð hans ótta um framtíð bankans, bæði hjá viðskiptavinum og almenningi.

Jørn Astrup Hansen, bankastjóri Eik Banka, segir ástæðulaust fyrir fólk að örvænta um málið og segir að Finansiel Stabilitet hyggist selja færeyska hluta Eik Banka, enda sé það ekki hlutverk stofnunarinnar að eiga og reka banka.

Jóannes Eidesgaard, landsstjórnarmaður sem fer með fjármál, segir í færeyskum fjölmiðlum að hann harmi þá óvissu sem skapast hefur um framtíð bankans. Reynt hefur verið að selja færeyska hluta Eik Banka en viðunandi tilboð ekki fengist enn. Eidesgaard segir að landsstjórnin sé í daglegu sambandi við dönsk stjórnvöld um málið.

Hann segir að ekki sé enn vitað hverjir þeir eru sem lýst hafa áhuga á að kaupa bankann. Eik Banki sé þýðingarmikill fyrir færeyskt samfélag. Ef ekki berist viðunandi tilboð áður en tilboðsfresti lýkur þá verði fundin önnur lausn. Eik Banki verði ekki lagður niður.

Janus Petersen, bankastjóri BankNordik sem áður hét Færeyjabanki,  hefur nú sagt að það komi til greina að leggja peninga í Eik Banka. Hann segir að BankNordik vilji stuðla að því að áfram verði tveir stórir bankar í Færeyjum.

Áður hafði hann lýst því að það væri ekki inni í myndinni. Hann segir að ef BankNordik leggi fé í Eik Banka þá þýði það ekki að þeir ætli að koma að daglegum rekstri. Einnig telur hann koma til greina að BankNordik taki yfir eitthvað af útlánum Eik Banka.

Jørn Astrup Hansen, bankastjóri Eik Banka, segir í grein á heimasíðu bankans að misskilnings gæti um aðkomu Finansiel Stabilitet að Eik Banka. Hann segir að megintilgangur Finansiel Stabilitet hafi verið að tryggja það að innistæðueigendur yrðu ekki fyrir tapi. 

Stofnunin tryggi hins vegar ekki bankakerfið sem slíkt eða líf einstakra bankastofnana. Eik Banki hafi verið síðasti bankinn sem Finansiel Stabilitet tók yfir áður en „bankapakka 1“ lauk í lok september sl. Allir aðrir bankar sem stofnunin tók yfir voru lagðir niður. Búast megi við að það verði örlög Eik Banka í Danmörku.

Hvað varði Eik Banka í Færeyjum hafi Finansiel Stabilitet ákveðið að losa sig við bankann í stað þess að leggja hann niður. Nú þegar Eik Banki í Færeyjum hafi losnað við fyrri eigendur og ábyrgðir á dótturfélaginu sé engin ástæða til annars en að bankinn geti lifað áfram.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK