Arion banki hefur gert samkomulag við Þorstein M. Jónsson og félög sem tengjast honum um uppgjör skulda. Meðal þessara félaga er Vífilfell hf. sem fer undir nýtt eignarhald. Arion banki segir að samkomulagið geri ráð fyrir fullum endurheimtum bankans.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Arion banka í morgun. Þar segir, að grundvöllur samkomulagsins sé sala eignarhaldsfélaga í eigu Þorsteins, Sólstafa og Neanu, á öllu hlutafé í Vífilfelli. Nýr eigandi Vífilfells er spænski drykkjarvöruframleiðandinn Cobega. Mario Rotllant, aðaleigandi Cobega, hefur lengi átt í viðskiptum við Ísland, þar á meðal saltfiskviðskiptum.
Bankinn segir að kaupverð sé trúnaðarmál en greiðslan komi að öllu leyti til lækkunar á skuldum eignarhaldsfélaga Þorsteins við Arion banka.
Búið er að skrifa undir kaupsamning en eftir stendur að ganga frá ákveðnum fyrirvörum sem tilgreindir eru í kaupsamningi. Reiknað er með að því verði lokið í febrúar.
Arion banki mun einnig fá í sinn hlut væntanlegt söluandvirði og aðrar greiðslur vegna hlutar Vífilfells í hollenska drykkjarvöruframleiðandanum Refresco. Þar til Refresco hefur verið selt mun Þorsteinn sitja í stjórn félagsins.
Fyrir fjárhagslega endurskipulagningu voru heildarskuldir Sólstafa og Neanu við Arion banka um 6,4 milljarðar króna og heildarskuldir Vífilfells við bankann voru um 4,5 milljarðar króna. Bankinn segir, að samkomulagið nú feli í sér fullnaðaruppgjör á skuldum Sólstafa og Neanu við Arion banka og að heildarskuldir Vífilfells verði um 2 milljarðar króna og þar af 1,4 milljarðar við Arion banka.
Þorsteinn á einnig hlut í fjárfestingafélaginu Materia Invest og er í persónulegri ábyrgð fyrir 240 milljónum af skuldum félagsins við Arion banka. Hluti af samkomulaginu nú er uppgjör þessara persónulegu ábyrgða.