Áætlun um afnám hafta mun róa markaðinn

Már Guðmundsson, seðlabankastjóri.
Már Guðmundsson, seðlabankastjóri. mbl.is/Ernir

Már Guðmundsson, seðlabankastjóri, sagði á blaðamannafundi í dag að það væri mat Seðlabankans, að þegar áætlun um afnám gjaldeyrishaftanna verður birt muni það hafa róandi áhrif á markaði. 

„Ég geri mér vonir um að það verði töluverð ánægja með þessa áætlun þegar hún kemur fram, og það er stutt í það," sagði Már. 

Hann sagði, að töluverð óvissa ríkti núna vegna fyrirhugaðrar þjóðaratkvæðagreiðslu um Icesave-samninginn og efnahagsframvindan til skemmri tíma myndi ráðast af töluverðu leyti hver niðurstaðan verður þar. 

Sagði seðlabankastjóri, að það sem skipti máli varðandi afnám gjaldeyrishafta og hversu hratt væri hægt að hafa í þau væru sú spurning hversu hratt íslenska ríkið fengi aðgang að erlendum lánsfjármörkuðum til að endurfjármagna lán og hugsanlega auka hlutdeild erlendrar fjármögnunar í sinni fjármögnun tímabundið. Ljóst væri, að þegar farið verði í að afnema gjaldeyrishöftin gæti það haft áhrif á þau lánakjör, sem ríkið fær hér innanlands. 

„Það er á þeim tímapunkti, sem Icesave kemur upp. Okkar mat er það, að ef niðurstaðan verður já þá mun það flýta fyrir þessum aðgangi. Það er ekki þar með sagt að hann myndi ekki fást einhverntímann, jafnvel þótt niðurstaðan yrði nei," sagði Már.

Þá sagði Már, að það hafi komið fram áður, að fyrstu skrefin í afnámi gjaldeyrishaftanna verði þess eðlis að það setji ekki gjaldeyrisforða og gengi krónunnar í hættu. Því væri hugsanlegt að stíga þau skref þótt lánsfjáröflun ríkisins erlendis væri ekki tryggð. En síðan kæmi að þeim tímapunkti að ekki væri hægt að ganga lengra. 

Már sagði, að best væri að afnema gjaldeyrishöftin sem fyrst en eftir því sem mögulegt væri og ekki stæði til að kollvarða þeim stöðugleika, sem hér hefði náðst, með ótímabærum aðgerðum. 

Þá sagðist Már geta fullyrt, að þjóðaratkvæðagreiðslan um Icesave-lögin muni ekki tefja birtingu áætlunarinnar um afnám gjaldeyrishaftanna. Allir væru sammála um, að þegar þegar komin væri niðurstaða um áætlunina þá yrði hún birt.  „Áætlunin mun einnig mikilvægar upplýsingar fyrir markaðinn og almenning til að skilja hvernig Icesave gæti komið eða ekki komið  inn í myndina," sagði Már. 

Fram kom á fundinum, að mikill innflutningur fjárfestingarvöru gæti bent til þess að innlend eftirspurn hafi verið meiri undir lok síðasta árs en þjóðhagsreikningar sýndu.   

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK