Fjármálaeftirlitið hefur vísað 65 málum til embættis sérstaks saksóknara frá ársbyrjun 2009. Á sama tíma hefur fjórtán málum verið vísað til efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra og sex til ríkissaksóknara.
Fram kemur í yfirliti frá stofnuninni, að stjórnvaldssektum hafi verið beitt ellefu sinnum á þessu tímabili og févíti eða dagsektum einu sinni. Þá hafi verið gerðar 58 sáttir og tólf sinnum verið gerðar athugasemdir. Viðurlagamál á tímabilinu séu því í heild orðin 167.
Fjármálaeftirlitið stórefldi á síðasta ári rannsóknarhóp sinn sem sinnir athugunum á mögulegum brotum í tengslum við bankahrunið og bætti níu starfsmönnum við hann, flestum á síðari hluta ársins. Hópurinn vinnur í nánu samstarfi við embætti sérstaks saksóknara.
Skýrt hefur verið frá því opinberlega að stefnt sé að því að öllum málum verði lokið hjá embætti sérstaks saksóknara fyrir árslok 2014.