Slitastjórn Glitnis mun ekki fylgja eftir áfrýjun sinni fyrir dómstólum í New York í skaðabótamáli sínu gegn fyrrverandi eigendum og stjórnendum bankans. Málið hefur því verið fellt niður. Steinunn Guðbjartsdóttir, fomaður slitastjórnar Glitnis, staðfestir þetta í samtali við mbl.is.
Þrír þeirra sem stefnt var undirbúa búskröfu í þrotabú Glitnis vegna þess kostnaðar sem þeir hafa þurft að bera, að því er fram kemur á vef RÚV.
Þeir Pálmi Haraldsson, Jón Ásgeir Jóhannesson og Hannes Smárason munu skila búskröfu í þrotabúið á næstu dögum. Þá íhuga þeir að fara fram á miskabætur. Haft er eftir Gísla Hall, lögmanni eins þeirra, á vef Ríkisútvarpsins, að kostnaður vegna málaferlanna hafi numið yfir 500 milljónum króna. Verði krafan samþykkt muni hún ganga fyrir öðrum kröfum í þrotabúið.
Slitastjórn Glitnis höfðaði skaðabótamál í maí 2010 á hendur sjö fyrrverandi eigendum og stjórnendum Glitnis sem og endurskoðunarfyrirtækinu PriceWaterhouseCooper fyrir dómstól í Bandaríkjunum. Þeir einstaklingar sem höfðað var mál gegn auk þeirra Pálma, Jóns Ásgeirs og Hannesar eru Ingibjörg Pálmadóttir, Jón Sigurðsson, Þorsteinn Jónsson og Lárus Welding, vegna ráðstöfunar fjár sem aflað var með skuldabréfaútgáfu í Bandaríkjunum árið 2007.
Málið í New York snerist um útgáfu Glitnis á skuldabréfum í New York-ríki að fjárhæð einn milljarður dala og krafðist slitastjórnin bóta sem námu meira en tveimur milljörðum dala.
Bréfin sem um ræðir voru seld í september 2007 til fjárfesta sem slitastjórnin hélt fram að hefðu verið blekktir hvað varðaði slæma fjárhagslega stöðu bankans. Þá hélt slitastjórnin því fram að þetta fé hefði svo verið notað af eigendum bankans og aðilum þeim tengdum til að bjarga eigin fyrirtækjum.
Málum slitastjórnar Glitnis gegn sjömenningunum og PwC á Íslandi var vísað frá dómi af dómstóli í New York í desember 2010. Segir í úrskurði dómara að dómstóllinn hafi ekki lögsögu í málinu vegna þess að bæði stefnandi og stefndu séu íslensk. Dómarinn í málinu setti ákveðin skilyrði fyrir frávísuninni. Annars vegar að allir sjö einstaklingarnir og PricewaterhouseCoopers viðurkenndu lögsögu íslensks dómstóls í málinu og hins vegar að þeir lýstu því yfir, að því yrði ekki mótmælt að dómur, sem kynni að falla í sambærilegu máli á Íslandi, yrði aðfararhæfur í New York.