Stjórnvöld í Þýskalandi sögðust í kvöld ætla að vinna að því með öðrum ríkjum á evrusvæðinu að endurheimta traust fjármálamarkaða. Matsfyrirtækið Standard & Poor's lækkaði í kvöld lánshæfiseinkunn 9 af ríkjunum 17 á evrusvæðinu.
Þýska fjármálaráðuneytið sagði í yfirlýsingu, að með því að binda reglur um ríkisfjármál í sáttmála verði stöðugleiki opinberra fjármála evruríkjanna tryggður. Með því móti muni evrusvæðið endurheimta traust fjármálamarkaða og viðhalda því.
Standard & Poor's sagði raunar í yfirlýsingu í kvöld, að nýr sáttmáli um ríkisfjármál, sem unnið er að innan Evrópusambandsins, valdi ekki straumhvörfum í baráttunni við efnahagsvandann á evrusvæðinu.
Skrifstofa forsætisráðherra Ítalíu sagði í kvöld, að þarlend stjórnvöld væru ákveðin í að koma á umbótum í ríkisfjármálum. Lánshæfiseinkunn Ítalíu var lækkuð um tvö stig í kvöld.
Olli Rehn, sem fer með efnahagsmál í framkvæmdastjórn Evrópusambandsins, gagnrýndi þá ákvörðun Standard & Poor's að lækka lánshæfiseinkunn ríkjanna níu.
„Ég harma þessa mótsagnakenndu ákvörðun ... Standard & Poor's um einkunn nokkurra aðildarríkja evrusvæðisins á sama tíma og evrusvæðið er að grípa til afgerandi ráðstafana á öllum sviðum," sagði Rehn í yfirlýsingu.