Arion banki hefur á undanförnum árum unnið markvisst að því að draga úr jákvæðum verðtryggingarjöfnuði, og það er ekki stefna hans að hagnast á verðbólgu heldur viðhalda eðlilegum jöfnuði á milli verðtryggðra skuldbindinga og eigna bankans. Þetta kemur fram í athugasemd frá bankanum vegna umfjöllunar Morgunblaðsins.
Athugasemd Arion Banka:
„Vegna fréttar Morgunblaðsins í morgun og umfjöllunar í fréttabréfi Júpiters um verðtryggingarjöfnuð bankanna vill Arion banki benda á að á undanförnum árum hefur verið unnið markvisst að því innan bankans að draga úr jákvæðum verðtryggingarjöfnuði.
Verðtryggingarjöfnuður Arion banka undir lok september 2011 var jákvæður um 17 milljarða króna. Í umfjölluninni kom fram að samanlagður verðtryggingarjöfnuður Arion banka, Landsbanka og Íslandsbanka á þeim tíma var jákvæður um meira en 144 milljarða. Hlutur Arion banka er því tæp 12%. Áfram er unnið að því að draga úr verðtryggingarjöfnuði innan bankans og undir árslok 2011 var verðtryggingarjöfnuður Arion banka kominn niður í um 13 milljarða.
Það er því ekki stefna bankans að hagnast á verðbólgu heldur að viðhalda eðlilegum jöfnuði á milli verðtryggðra skuldbindinga og eigna bankans.
Á undanförnum mánuðum hefur Arion banki haft forystu um það meðal íslenskra fjármálafyrirtækja að fjölga óverðtryggðum kostum á sviði íbúðalána. Þannig bauð bankinn í september sl. fyrstur banka upp á óverðtryggð íbúðalán með hagstæðum vöxtum sem bundnir eru til fimm ára í senn.“