Fréttaskýring: Þjóðin aftur farin að taka dýr lán fyrir neyslu

Yfirdráttarlán heimila aftur komin í hæstu hæðir.
Yfirdráttarlán heimila aftur komin í hæstu hæðir. mbl.is/Kristinn

Margt bendir til þess að einkaneyslan á Íslandi sé drifin áfram af eyðslu á sparnaði og skuldsetningu og þann hagvöxt sem mælist á Íslandi í dag megi að hluta rekja til þess. Þetta kemur fram í greiningu í Fréttum af markaði, hjá rekstrarfélaginu Júpiter sem Þórður Gunnarsson hefur umsjón með.

Yfirdráttarlán eru 5,7% af heildarskuldum heimilanna

Ástæða þessarar athugunar Þórðar er vangaveltur um hvort úrskurður Hæstaréttar í síðustu viku um hver vaxtabyrði gengistryggðra lána skuli vera muni leiða til þess að margt fólk muni fá mikið fé á milli handanna til einkaneyslu á næstunni. Það verður að teljast ólíklegt þar sem fordæmisgildi dómsins er enn óljóst og ljóst að ef áhrifin á hagkerfið verða einhver verði það eftir nokkurn tíma.

Frá því að lögin sem gáfu heimild til úttektar á séreignasparnaði voru samþykkt skömmu eftir hrun hafa landsmenn tekið út rúmlega 60 milljarða króna en það eru um 4% af vergri árs landsframleiðslu. Úttekt þessa sparnaðar hefur leikið mikilvægt hlutverk í einkaneyslu landsmanna frá hruni.

Í hagtölum frá Seðlabanka Íslands má sjá að yfirdráttarlán eru í desember komin upp í tæpa 69 milljarða króna eða um 5,7% af heildarskuldum heimila sem námu 1.210 milljörðum í árslok 2011. Ef skoðað er tímabilið frá júlí 2011 til desember 2011 er aukningin í yfirdráttarlánum heimilanna um 18 milljarðar, úr 51 milljarð í 69 milljarða.

Aukin skuldsetning heimila

Þetta vekur upp þá spurningu hvort sú aukning sem varð í einkaneyslu á síðasta ári, sem orsakaði að miklu leyti þann 3% hagvöxt sem mældist, sé ekki að einhverjum hluta tilkominn vegna aukinnar skuldsetningar heimila til skamms tíma.

Þess ber að geta að fulltrúi Seðlabankans staðfesti í samtali við Morgunblaðið að tölurnar sýndu það sem er nýtt af yfirdráttarheimildinni en ekki ónýtta heimild.

Yfirdráttarlán heimilanna hafa ekki verið svona mikil síðan fyrir hrun en þau voru síðast hærri í september 2008 þegar Ísland var á bjargbrúninni.

Í samtali við Morgunblaðið segir Soffía Sigurgeirsdóttir hjá Landsbankanum að þetta séu líklega merki um að Íslendingar séu að eyða um efni fram.

„Við sjáum hjá okkur að kreditkortaveltan er að aukast en debetkorta veltan að minnka. Það er vonandi að við séum ekki að taka einhver skref aftur á bak hvað varðar skynsemi í fjármálum.

Yfirdráttarlánin eru dýrustu lánin á markaðinum og eru fyrst fremst hugsuð til að brúa bilið í fjármálum.

En það kemur að skuldadögum og það er erfiðara að hækka heimildina og framlengja hana. Það er hluti af áhættustýringu bankans að hvetja ekki til þess að fólk taki yfirdráttarheimild, við lítum á hana sem tímabundna ráðstöfun,“ segir Soffía.

Ingunn Þorsteinsdóttir hjá ASÍ sagði í samtali við Morgunblaðið að það væri rétt að þessar sértæku aðgerðir eins og úttekt á séreignasparnaðinum og sérstökum vaxtabótum mundu taka enda og þá mundi hægja á vexti á einkaneyslu. Enda spái þau því að aðeins verði um 1% aukning á einkaneyslu á næsta ári.

Hannes G. Sigurðsson, aðstoðarframkvæmdastjóri Samtaka Atvinnulífsins, segist lengi hafa bent á það að forsendur hagvaxtarins séu veikar.

„Einkaneyslan er tilkomin að stærstum hluta vegna tímabundinna aðgerða og mun ganga til baka að hluta og hafa samsvarandi neikvæð áhrif á hagvöxt á næstunni. Eftir stendur sá meginvandi íslensks þjóðarbúskapar að hér eru alltof litlar fjárfestingar og ekki verið að auka framleiðslu á raunverulegum verðmætum,“ segir Hannes.

Veikar forsendur

» Hagtölur Seðlabankans benda til þess að einkaneyslan sé drifin áfram af eyðslu á sparnaði og skuldsetningu.
» Sá hluti hagvaxtarins sem rekja má til sértækra aðgerða eins og til dæmis útgreiðslna viðbótarlífeyrissparnaðar og þess háttar mun ganga til baka og valda samsvarandi neikvæðum áhrifum á hagvöxtinn.
» Það sem stendur eftir sem forsendur hagvaxtarins er sá búhnykkur sem makrílveiðarnar voru.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Loka