Varla hægt að tala um bólu

mbl.is/Ómar

Umskiptin á íbúðamarkaði hafa verið hröð frá því að hann náði botni árið 2010 og íbúðaverð hefur hækkað um ríflega 8% undanfarna 12 mánuði. Þessi hröðu umskipti og útlit fyrir frekari hækkanir íbúðaverðs á næstu misserum hafa vakið spurningar um hvort eignabóla muni myndast á íbúðamarkaði en Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur m.a. bent á hættuna af þessum möguleika, segir í Morgunkorni Íslandsbanka.

Í nýlegri íbúðaspá Greiningar Íslandsbanka var því spáð að íbúðaverð myndi hækka um 16% á næstu tveimur árum eða um 8,5% hækkun að raunvirði yfir sama tímabil. Til grundvallar spánni liggur m.a. það efnahagslega umhverfi sem höftin skapa, það er umhverfi sögulega lágra vaxta og fárra fjárfestingarkosta.

Önnur grundvallarforsenda sem liggur fyrir spánni er áframhaldandi bati í hagkerfinu og gangi það eftir er alveg ljóst að innistæða er fyrir þessum hækkunum og því verði ekki hægt að tala um eignabólu í því sambandi. Ef afnám hafta mistekst þannig að gengi krónunnar fellur umtalsvert í kjölfarið er hins vegar viðbúið að það hafi umtalsverð áhrif á verð allra innlendra eigna. Slíkt myndi rýrrar kaupmátt, hækka innlenda vexti og lækka húsnæðisverð. 

Þegar skoðað er hvort eignabóla sé að myndast á íbúðamarkaði er sérstaklega athyglisvert að skoða tvennt, að mati Greiningar Íslandsbanka. Í fyrsta lagi sögulega þróun raunverðs íbúðarhúsnæðis og í öðru lagi þróun verðs m.v. byggingarkostnað að viðbættu lóðarverði.

Þrátt fyrir hækkanir á íbúðamarkaði er raunverð íbúðarhúsnæðis enn langt undir því sem það fór hæst í í lok árs 2007. Þannig er raunverð nú 35% lægra nú en það var á hápunktinum í þeirri eignabólu sem varð á íbúðamarkaði fyrir hrun.

Gangi spá Greiningar Íslandsbanka um þróun íbúðaverðs eftir verður raunverð íbúða enn um það bil fjórðungi lægra en það fór hæst. Sögulega séð er raunverð íbúða nú á sama stað og það var árið 2004 og í lok spátímabilsins verður það á svipuðum slóðum og það var í ársbyrjun 2005. Varla er því hægt að tala um eignaverðsbólu í því sambandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK