Arion banki hefur lokið samningum um fjármögnun þýska félagsins TSP – The Seafood Processor Gmbh og dótturfélags þess, TST – The Seafood Traders Gmbh. Móðurfélag TSP er Leuchtturm Beteiligungs- und Holding Germany AG.
Um er að ræða nýtt framleiðslu- og sölufyrirtæki á sviði sjávarafurða. Fjármagnið verður annars vegar notað í uppbyggingu nýrrar og fullkominnar verksmiðju sem framleiða mun vörur á neytendamarkað og hins vegar afurðalán til að mæta sveiflum í rekstri. Félagið verður fyrst og fremst með starfsemi í Þýskalandi og meðal viðskiptavina verða stærstu smásölukeðjur Þýskalands, segir í tilkynningu frá Arion banka.
Félagið er að hluta í eigu lykilstjórnenda og Íslendinga en í meirihlutaeigu japanska sjávarútvegsrisans Nippon Suisan (Nissui), annars stærsta sjávarútvegsfyrirtækis heims, sem skráð er á hlutabréfamarkaðinum í Tokýó. Forstjóri hins nýja fyrirtækis er Finnbogi A. Baldvinsson.