Samdrátturinn er meiri í Bretlandi heldur en áður var talið. Samkvæmt hagtölum sem birtar voru í morgun var samdrátturinn 0,3% á fyrsta ársfjórðungi. Bráðabirgðatölur höfðu bent til þess að samdrátturinn væri 0,2%, samkvæmt upplýsingum frá Hagstofu Bretlands.
Þetta þýðir að samdráttarskeið er hafið í Bretlandi en landsframleiðsla dróst einnig saman um 0,3% á fjórða ársfjórungi síðasta árs.
Scott Corfe, hagfræðingur hjá Centre for Economics and Business Research, segir þetta slæma niðurstöðu fyrir stjórnvöld í Bretlandi þar sem þetta sýni að staðan sé enn verri en áður var talið. Þetta bendi til þess að efnahagsástandið í Bretlandi sé verra heldur en á evru-svæðinu en þar hafi staðan verið betri á fyrsta ársfjórðungi í ár þrátt fyrir að enginn hagvöxtur hafi mælst á svæðinu á fyrsta fjórðungi.
Talsmaður Davids Cameron's, forsætisráðherra Bretlands, segir að það sé erfitt fyrir breskt efnahagslíf að vaxa á sama tíma og stór hluti Evrópu á í erfiðleikum.