„Það vorum bara við feðgarnir sem allt var hirt af í hvelli,“ segir Jóhannes Jónsson um afleiðingar efnahagshrunsins fyrir hann og soninn Jón Ásgeir í viðtali í nýjasta tölublaði Mannlífs. „Þó að við, eins og aðrir, höfum verið með miklar skuldir þá voru líka á bak við þær miklar eignir, eins og sést til dæmis á því að nú er verið að selja Iceland-verslunarkeðjuna bresku, sem við áttum, á rúma 300 milljarða; svo hátt verð að það nær að dekka næstum allt þetta Icesave-klúður Landsbankans og hefði bjargað Baugi ef við hefðum fengið að halda eigninni.“
Jóhannes segir að í hruninu hafi verið ákveðið að selja allar eigur Baugs í hvelli og við það glötuðust háar fjárhæðir. „Hefðum við fengið að halda okkar eignum í Bretlandi hefðum við getað borgað allar okkar skuldir hérna heima. Heildarskuldirnar hér voru ríflega 300 milljarðar en bara hluturinn í Iceland var þess virði, auk þess sem fleiri góðar eignir voru inni í Baugi. Núna eru Hagar orðnir að nokkurskonar Kaupfélagi lífeyrissjóðanna. En þeir ná ekki inn hagnaði í dagvöruverslun nema af kúnnunum, sem eru jafnframt sjóðsfélagar. Ég sé ekki hvernig það gengur upp.“
Hann segir að hér hafi stjórnmála- og embættismenn kennt öllum öðrum en þeim sjálfum um fjármálakreppuna. „Svokallaðir útrásarvíkingar eru einir látnir taka skellinn. Það dregur athyglina frá þeirra eigin verkum, eða verkleysi, og kemur þeim undan ábyrgð.“ Vissulega hafi menn farið offari en freistingarnar voru víða. Bankar hafi boðið gull og græna skóga, bæði einstaklingum og fyrirtækjum fulla fjármögnun með engri áhættu.