Á meðan heimsbyggðin hefur verið að bíða eftir byltingu í smíði rafmagnsbíla hefur átt sér stað heldur hljóðlátari bylting í gerð rafmagnshjóla. Eftir áratuga þróun bjóðast nú rafmagnshjól sem standast öll viðmið sem bílaiðnaðurinn hefur verið að eltast við um áreiðanleika, notagildi og sparnað en að sjálfsögðu margfalt ódýrari. Og nú eru rafmagnshjólin tekin að hasla sér völl á Íslandi.
Í vor hóf Ragnar Kristinn Kristjánsson að selja hollensk rafmagnshjól frá QWIC-framleiðandanum og segir Ragnar að fyrstu viðbrögð bendi til þess að rafmagnshjól séu áhugaverður kostur í augum Íslendinga. Ragnar hefur opnað búð sína Rafmagnshjól í Skipholti 33 og gengur þar í öll verk auk þess sem hann sinnir dótturdóttur sinni eins og blaðamaður kynnist í heimsókn í verslunina. Ragnar segir barnagæsluna tilfallandi en hér er um að ræða fjölskyldufyrirtæki og dóttir hans og tengdasonur aðstoða við sölu og standsetningu hjóla.
Í fótspor Marco Polo
Fyrstu QWIC-hjólin komu á götuna árið 2006. Hugmyndin kviknaði tveimur árum fyrr er tveir ungir hollenskir verkfræðingar fóru í 10.000 km langt hjólreiðaferðlag á milli Beirút og Peking sem tók alls sjö mánuði. Hjóluðu þeir meðal annars Silkiveginn í fótspor Marco Polo en hann var sem kunnugt er fyrstur Vesturlandabúa að ganga þessa erfiðu og skörðóttu leið. Í ferðinni fengu verkfræðingarnir þá hugmynd að hanna og framleiða einfalt, vandað og þægilegt borgarhjól með hjálp nútíma-rafmagnstækni. Í framhaldi hófst samstarf við tæknideild Háskólans í Delft en það samstarf stendur enn. Nýtt merki varð til, QWIC (Quality With Innovative Convenience! – Gæði og áður óþekkt þægindi!). Að sögn Ragnars vöktu hjólin vöktu strax mikla athygli fyrir að vera smekkleg, þægileg og notendavæn, meðal annars hefur TREND-hjólið unnið til fjölda 1. verðlauna í óháðum rafmagnshjólaprófunum. QWIC-hjólið eru eitt af mest seldu rafmagnshjólum í Hollandi en að sögn Ragnars eru nú rafmagnshjól um 17% seldra hjóla í þessu mikla hjólalandi og eftir fimm ár er ætlað að þetta hlutfall verði komið upp í 40% en Ragnar taldi það nokkuð bjartsýnar spár.
Heilbrigðari lífshættir
Ragnar segist sannfærður um að sjálfbær ferðamáti sé framtíðin. ,,Nútímamaðurinn er háður samgöngum að meira eða minna leyti. Með tilkomu rafmagnshjólanna hefur skapast nýr og frábær umhverfisvænn valkostur til að komast á milli staða í borg og þéttbýli – og þar með er stuðlað að minni bílaumferð og útblæstri auk betri heilsu,” segir Ragnar. Hann segist hafa reynt þetta á sjálfum sér. Þau hjónin ákváðu að láta einn bíl nægja og eru nú með tvö rafmagnshjól til taks og fullyrðir Ragnar að hann sé búinn að missa nokkur kíló auk þess að spara eldsneytiskostnað. ,,Ég sé þetta fyrir mér sem valkost fyrir bíl númer tvö á heimilinu. Með því að nota rafmagnshjól má lækka ferðakostnað heimilisins verulega,” sagði Ragnar.
Rafmagnshjól bjóða upp á fjórar gerðir hjóla til að byrja með á verði frá 300 til 390 þúsund krónur. Hjólin eru ákaflega sterkbyggð, nokkuð þung og augljóslega fær um að standast áraun. Rafmagnsbúnaðurinn fellur vel að hjólinu sem er framhjóladrifið. Rafhlaðan skiptir vitaskuld mestu en hægt er að hlaða hana 1000 sinnum miðað við að hún sé tóm (frá 0 – 100%). Ef rafhlaðan er ekki tóm þegar hún er sett í hleðslu – þá er hægt að hlaða oftar en 1000 sinnum. Samkvæmt þeim upplýsingum sem framleiðandi lætur í té má gera ráð fyrir að rafhlaðan endist í um fjögur ár ef hún hefur fengið góða meðhöndlun. Hlaða skal rafhlöðuna helst við stofuhita og ekki undir 10°C. Í flestum tilvikum má komast 35 til 135 km á einni hleðslu.
Allar QWIC-rafhlöður eru Litíum-ion polymeer sem eru ekki eins viðkvæmar fyrir umhverfishitastigi, samanborið við NiMh- eða Lead-acid rafhlöður. Hafa verður þó í huga að við hitastig undir 8°C fer afkastageta rafhlöðunnar stiglækkandi. Ragnar segir að það ætti ekki að koma í veg fyrir að fólk geti notað hjólin á veturna.
Sjá nánar á http://rafmagnshjol.is/