Á mánudaginn opnaði Tómas Tómasson, oftast kenndur við Hamborgarabúlluna, nýjan veitingastað í Marylebone í London. Byggir hann staðinn á því sem vel hefur tekist með Búlluna hér heima og ætlar að geta sér gott orð á nýjum stað, þar sem hamborgarar hafa verið í mikilli sókn síðustu tvö til þrjú árin.
Í samtali við mbl.is segir Tommi að viðtökurnar hafi verið framar væntingum. Ekki hafi verið lagt mikið upp úr að auglýsa staðinn fyrir opnun, heldur hafi skilti í glugganum og umtal manna á netinu verið látið nægja. Þegar staðurinn var aftur á móti opnaður á mánudaginn hafi verið fullt að gera og síðan þá hafi verið fimm til átta manns í bið á hverjum tíma eftir grilluðum borgurum að hætti Tomma.
Hann stendur ekki einn í þessu verkefni, en reksturinn er í eigu Róberts Arons Magnússonar, Valgarðs Sörensen og Halls Dan Johansen. Tommi leggur aftur á móti til nafnið, vörumerkið, uppskriftir og verður á staðnum næstu mánuði til að slípa reksturinn til þangað til allt er eins og það á að vera.
Í London heitir staðurinn ekki Hamborgarabúllan eins og hér heima, heldur verður notast við Tommi's burger joint. Segir Tommi að markmiðið sé að vera á milli skyndibitastaða eins og McDonalds og svo veitingastaða þar sem sest er niður með hníf og gaffal og virkilega farið út að borða. Verðið eigi að vera sanngjarnt, kjötið fyrsta flokks og hamborgarinn borinn fram í bréfi.
Tommi segir að mikil áhersla hafi verið lögð á að finna úrvals kjöt og að fjölmargir kjötframleiðendur hafi verið heimsóttir til að finna hið rétta kjöt. Eftir stóð svo einn sem hafi uppfyllt allar kröfur, en gott kjöt segir Tommi að sé það mikilvægasta við góðan hamborgara.
Þegar leitað er að umfjöllunum um staðinn á netinu virðast viðskiptavinir þessar fyrstu vikur vera mjög sáttir og segist gagnrýnandi á veitingastaðablogginu Messi-Palate ekki finna neitt til að setja út á staðinn, heldur sé hann ódýr og einn af betri hamborgarastöðum í London. Í lokin býður hann Hamborgarabúlluna velkomna til borgarinnar.
Aðspurður hvort Ólympíuleikarnir hafi haft áhrif á viðskiptin þessu fyrstu daga segir Tommi að á meðan leikarnir fari fram sé borgin dauð og fáir á ferli. Í því ljósi sé sérstaklega ánægjulegt hvernig viðtökurnar hafi verið.
Nýja búllan í London er á 58 Marylebone Lane, rétt fyrir aftan Debenhams-búð, um 300 metra frá Oxfordstræti.