Vottunarstofan Tún hefur staðfest að Te & kaffi uppfylli reglur um framleiðslu á lífrænu kaffi. Vottorð þessa efnis var formlega afhent í kaffibrennslu félagsins í Hafnarfirði í morgun, föstudaginn 11. janúar 2013. Te & kaffi er fyrsta vinnslustöðin sem fær vottun til framleiðslu á lífrænu kaffi hér á landi. Þetta kemur fram í tilkynningu frá félaginu.
Með vottun Túns er staðfest að lífrænt kaffi sem vinnslustöðin framleiðir byggist á vottuðum lífrænum hráefnum, sem haldið er aðgreindum frá öðrum hráefnum á öllum stigum, allt frá móttöku kaffibauna til pökkunar á ristuðum baunum og möluðu kaffi.
Te & kaffi var stofnað árið 1984. Fyrirtækið rekur kaffibrennslu í Hafnarfirði auk níu kaffihúsa og verslana í Reykjavík og á Akureyri. Í kaffibrennslunni fer fram m.a. ristun kaffibauna, blöndun og pökkun á kaffibaunum og möluðu kaffi.
Stefán Ulrich Wernersson, framleiðslustjóri hjá fyrirtækinu, telur vottunina mikilvæga og staðfesta bæði getu og framleiðslugæði Tes & kaffis. Ennfremur segir hann að vottunin beri vitni um strangan og agaðan verkferil við framleiðsluaðferðir fyrirtækisins.