Alcoa greiðir 45 milljarða í sekt

mbl.is

Bandaríska álfyrirtækið Alcoa og samstarfsfyrirtæki þess hefur samþykkt að greiða 384 milljónir dala, sem samsvarar um 45 milljörðum kr., í sektargreiðslu, en fyrirtækið var ákært af bandarískum yfirvöldum fyrir að hafa mútað embættismönnum í Barein við Persaflóa til að tryggja viðskiptalega hagsmuni í landinu.

Alcoa World Alumina, sem er í meirihlutaeigu Alcoa, var sakað um að hafa greitt milljónir dala í mútgreiðslur í gegnum milligöngumann í Lundúnum að sögn bandaríska dómsmálaráðuneytisins. Var þetta gert að beiðni ákveðinna einstaklinga innan konungsfjölskyldunnar í Barein.

Verðbréfamiðlari í London, sem setti skúffufyrirtæki á laggirnar, hækkaði verð á áli sem var selt til ríkisfyrirtækis í Barein sem samsvarar 188 milljónum dala á árunum 2005 til 2008, að því er segir í yfirlýsingu frá dómsmálaráðuneytinu. 

Hann er sagður hafa greitt tugi milljóna dala í mútugreiðslur til embættismanna í Barein og til einstaklinga innan konungsfjölskyldunnar. Milligöngumaðurinn lagði fé inn á bankareikninga í Sviss og í öðrum löndum, en reikningarnir voru skráðir á dulnefni. 

Alcoa samþykkti að játa sök gagnvart einum ákærulið sem varðar brot á ákvæði um mútugreiðslur samkvæmt bandarískum lögum. 

Mytheli Raman, starfandi aðstoðardómsmálaráðherra Bandaríkjanna, segir að Alcoa hafi viðurkennt aðild sína að spilltri alþjóðlegri undirheimastarfsemi. Þar hafi milligöngumaður, sem hélt utan um leynilega bankareikninga erlendis, og skúffufyrirtæki verið notuð til að koma mútugreiðslum í hendur embættismanna í því skyni að tryggja viðskipti álfyrirtækisins. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Loka