Skerðingin kostar 500 milljónir

Fjölmargar hitaveitur, stofnanir og fyrirtæki verða fyrir skerðingu á umframorku …
Fjölmargar hitaveitur, stofnanir og fyrirtæki verða fyrir skerðingu á umframorku vegna slæmrar stöðu miðlunarlóna í ár. Mynd/mbl.is

Fjölmargar stofnanir, fyrirtæki og hitaveitur sveitarfélaga verða fyrir skerðingu á rafmagni vegna umframraforkusamninga nú þegar staða vatnabúskaps hefur verið með slakasta móti. Fyrir utan hitaveitur í nokkrum sveitarfélögum er um að ræða fyrirtæki í fiskþurrkun, sundlaugar, elliheimili og skóla. Þetta getur sett rekstur margra fyrirtækja í hættu, en einnig hækkar þetta kostnað hitaveita og rekstur opinberra stofnana gríðarlega mikið. Í mörgum tilfellum þarf að snúa sér að olíukyndingu, en kostnaður við slíkt getur hlaupið á um 500 milljónum þá tvo mánuði sem skerðingin á sér stað. Á sama tíma má áætla að Landsvirkjun hafi um 118 milljónir upp úr sölu á sama magni raforku til stóriðjufyrirtækja. 

Skerðing á bæði hitaveitur og stóriðju

Skerðingin sem Landsvirkjun kynnti fyrst í janúar hófst í byrjun mánaðarins og nemur hún 260 megavattsstundum á þessum tveimur mánuðum. Það nemur um 2% af heildarorkuvinnslu Landsvirkjunar. Þar af mun stóriðjan taka meirihluta skerðingarinnar, eða 220 megavattsstundir, meðan hitaveitur og smærri aðilar verða skert um 40 megavött.

Landsvirkjun hefur lengi boðið upp á svokallaða umframorkusamninga sem bjóða kaupendum upp á ótrygga orku á mjög hagstæðum kjörum og þetta hafa meðal annars hitaveitur á köldum svæðum og nokkur fyrirtæki sem þurfa á mikla raforku nýtt sér þá. Hingað til hefur að mestu verið komist hjá skerðingu, eða eins og einn viðmælandi mbl.is sagði að það hafur skerðing í mesta lagi verið í stuttan tíma vegna viðgerða eða annarra slíkra uppákoma. Nú er staðan þó sú að skerðingin á að vara í tvo mánuði og mögulega lengur ef vatnabúskapur batnar ekki.

Viðbótarkostnaðurinn 500 milljónir

Kostnaður vegna þessarar skerðingar, sem ekki tengist stóriðjunni, er töluvert mikill, því stofnanir og fyrirtæki þurfa að færa sig yfir í olíu sem orkugjafa. Þetta hefur aukið kostnað þeirra allt að fimmfalt og sagði Steingrímur Leifsson, framkvæmdastjóri og eigandi í Frostfiski, í samtali við mbl.is í síðustu viku að þetta setti reksturinn í mikið uppnám. 

Miðað við þá olíu sem þarf að brenna til að framleiða 40 megavattsstundir í þessa tvo mánuði má áætla að viðbótarkostnaðurinn nemi um 500 milljónum í heildina. Þar af er kostnaður hitaveita hvað mestur, en sem dæmi notar hitaveita HS veita fyrir Vestmannaeyjarbæ um þriðjung þessarar umframorku. Reiknað er með að viðbótarkostnaður veitunnar muni nema um 2,5 milljónum á dag, eða 150 milljónum á tímabilinu. Það eru um 30% af árstekjum veitunnar og því um gríðarlegar fjárhæðir að ræða.

Kostar Vestfirðinga 4 milljónir á dag

Stór hluti umframorkunnar fer einnig gegnum Orkubú Vestfjarða, en margar hitaveitur á Vestfjörðum verða fyrir áhrifum af skerðingunni. Þetta eru hitaveitur á Patreksfirði, Flateyri, Suðureyri, Ísafirði og Bolungarvík. Þá hafa einnig sundlaugarnar á Þingeyri og Hólmavík, til viðbótar við grunnskólann á Hólmavík notast við umframorkusamninga. Samanlagður viðbótarkostnaður þessara aðila er um fjórar milljónir á dag, eða 220 til 240 milljónir á skerðingartímanum.

Dótturfyrirtæki Rarik, Orkusalan sér einnig um stóran hluta af umframorkusamningum og meðal þeirra sem verða fyrir skerðingu eru hitaveitur Rarik á Höfn og Seyðisfirði. Þá verða ýmsir skólar og sundlaugar víða um land fyrir skerðingu til viðbótar við íþróttahús og dvalarheimili aldraðra. Meðal sveitarfélaga sem þurfa að taka á sig kostnað vegna þessa eru Skagaströnd, Snæfellsbær, Norðurþing og Langanesbyggð.

Orkuveita Reykjavíkur hefur einnig boðið upp á slíka samninga, en samkvæmt upplýsingum frá fyrirtækinu hefur ekki þurft að skerða neina kaupendur og að ekki sé fyrirséð að svo verði. Það var þó tekið fram að um mjög fáa aðila væri að ræða.

Vilja sjá viðræður við stóriðjuna um kaup á forgangsrafmagni

Þegar horft er á meðalraforkuverð Landsvirkjunar til stóriðjufyrirtækja má sjá að það var í fyrra 25,8 Bandaríkjadollarar á megavattsstund. Fjölmargir aðilar sem mbl.is ræddi við í raforkugeiranum og hjá fyrirtækjum sem verða fyrir skerðingu töldu einkennilegt að ekki hefði verið gert meira til að ýta á um að samninga við stóriðjufyrirtækin. Horft er til þess að þau gætu tekið á sig örlítið meiri skerðingu, en að þeim yrðu greiddar einhverjar bætur ofan á það verð sem þau kaupa orkuna venjuega á. Það gæti leitt til niðurstöðu sem væri öllum hagfeld.

Miðað við fyrrgreint meðalverð greiðir stóriðjan um 118,6 milljónir íslenskra króna fyrir 40 megavattsstundir á þessum tveimur mánuðum. Ef kostnaður hitaveita og fyrirtækja við að halda uppi sama rekstri og áður er 500 milljónir má sjá að þar munar rúmlega 380 milljónum og höfðu viðmælendur mbl.is á orði að það væri töluvert bil til þess að ræða samkomulag um færslu á forgangsorku frá stóriðjunni til umframorkukaupendanna.

Fæstir bjuggust við svo umfangsmikilli skerðingu

Það skal tekið fram að stóriðjan er að mestu leyti með forgangsraforkusamninga og Landsvirkjun skuldbindur sig til að afhenda það rafmagn. Því til viðbótar er hluti raforkusamningsins með skerðingarákvæði. Þau fyrirtæki og stofnanir sem kaupa umframorkuna greiða aftur á móti lágt verð í samanburði við heildsöluverð, með það fyrir augum að til skerðingar geti komið. Eins og kom fram í frétt mbl.is á sunnudaginn, virðast þó fæstir kaupendur hafa gert sér grein fyrir að skerðingin gæti orðið jafn umfangsmikil og nú blasir við, með tilheyrandi rekstarkostnaði og erfiðleikum fyrir fyrirtækin.

Blöndulón á Auðkúluheiði í ágætu horfi fyrir nokkrum árum. Innrennslið …
Blöndulón á Auðkúluheiði í ágætu horfi fyrir nokkrum árum. Innrennslið í lónið á síðasta ári var hins vegar nálægt sögulegu lágmarki. mbl.is/Einar Falur Ingólfsson
Margar hitaveitur og stofnanir hafa þurft að færa sig yfir …
Margar hitaveitur og stofnanir hafa þurft að færa sig yfir í olíubrennslu vegna skerðingar á umframorku sem þau hafa hingað til keypt. mbl.is/Rax
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Loka