8.000 eintök smíðuð af Boeing-737

Ekkert lát er á vinsældum Boeing 737-flugvéla.
Ekkert lát er á vinsældum Boeing 737-flugvéla. mbl.is/Boeing

Brotið var blað í sögu flugvélasmíði í dag er átta þúsundasta Boeing 737-þotunni var ýtt út úr flugvélaverksmiðju Boeing í Renton við Seattle í Bandaríkjunum. Engin farþegaþota hefur selst jafn mikið.

Þotan, af undirgerðinni 737-900ER, verður afhent eigendum sínum í dag en kaupandinn er bandaríska flugfélagið United Airlines (UAL). Félagið keypti á sínum tíma fyrstu 737-þotuna sem seld var bandarísku flugfélagi.

Það er til marks um vinsældir Boeing 737-þotunnar að mörg flugfélög í heiminum eru ekki með aðrar gerðir í rekstri og byggja rekstrarmódel sitt alfarið á rekstri henni.

Vegna þessara tímamóta má nefna, að keppinauturinn Airbus í Frakklandi framleiddi sína átta þúsundustu flugvél, af öllum gerðum samanlögðum, í ágúst í fyrrasumar. Þá hófst smíði Boeing 737 árið 1967, eða nokkrum árum áður en Airbus smíðaði sína fyrstu þotu.

Mál hafa þó æxlast þannig að nú selur Airbus fleiri meðaldrægar þotur en Boeing og nýtur þar styrkleika A320 þotufjölskyldunnar sem hafin var smíði á árið 1988. Í mars sl. afhenti Airbus sexþúsundustu A320-þotuna. Endurspeglar það og hversu afköst við þotusmíði eru miklu meiri nú en á bernskuárum 737-þotunnar.

Úr smiðjum Boeing renna 42 eintök af 737-þotunum á mánuði og kveðst Boeing ætla auka afköstin í 47 á mánuði frá og með 2017 vegna mikillar eftirspurnar. Airbus ætlar árið 2016 að smíða 46 A320 á mánuði miðað við 42 nú.

Fyrstu 737-100 þotu sögunnar keypti þýska flugfélagið Lufthansa var 30 metrar að lengd og vænghafið var jafn langt. United vildi tveimur metrum lengri þotu og því varð til módelið 737-200. Sú útgáfa af flugvélinni reyndist mun vinsælli meðal flugfélaga. Síðar tóku ný og ný afbrigði við, allt þar til 900ER-þotan sá dagsins ljós.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK