Ríkið skoðar kaup á AFL sparisjóði af Arion banka

Þótt Arion banki eigi í dag nánast öll stofnfjárbréf sparisjóðsins …
Þótt Arion banki eigi í dag nánast öll stofnfjárbréf sparisjóðsins þá hefur bankinn einungis 5% atkvæðisrétt á fundum stofnfjárhafa. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Til skoðunar er að Bankasýsla ríkisins kaupi 99,3% eignarhlut Arion banka í AFL sparisjóði. Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins gæti kaupverðið verið greitt með því að afhenda hluta af 13% eignarhlut ríkisins í Arion banka sem Bankasýslan heldur utan um.

Jón Gunnar Jónsson, forstjóri Bankasýslunnar, vildi ekki tjá sig um málið í samtali við Morgunblaðið. Það hefði ekki enn fengið formlega meðferð innan stofnunarinnar.

Arion banki eignaðist upphaflega 95% stofnfjár í sparisjóðnum 2009, sem er með starfsemi á Siglufirði og Sauðárkróki, við yfirtöku á Sparisjóði Mýrasýslu. AFL er stærsti sparisjóður landsins, með um 25-30% af veltu þeirra sparisjóða sem enn eru starfræktir, og nam eigið fé 909 milljónir í árslok 2012.

Eignarhlutur ríkisins í Arion banka er metinn á um 18 milljarða miðað við bókfært eiginfjárvirði. Því er ljóst að sá hlutur sem ríkið myndi afhenda í bankanum við möguleg kaup á AFL sparisjóði yrði vel innan við 1%.

Þótt Arion banki eigi í dag nánast öll stofnfjárbréf sparisjóðsins þá hefur bankinn einungis 5% atkvæðisrétt á fundum stofnfjárhafa, í samræmi við hámarksatkvæðisrétt í lögum um sparisjóði. Allt frá árslokum 2011 hefur bankinn haft uppi áform um að renna sparisjóðnum inn í Arion banka. Af þeirri sameiningu hefur hins vegar enn ekki orðið.

Í svari frá Arion banka kemur fram að bankinn hafi af og til átt samtal við stjórnvöld um rekstur og eignarhald AFL sparisjóðs. Ekki séu nein ný tíðindi af þeim samskiptum en bankinn sé þó „alltaf tilbúin að ræða uppbyggilegar lausnir hvað varðar rekstur og framtíð sparisjóðsins“.

Meiri möguleikar á hagræðingu

Bankasýslan fer nú með eignarhluti ríkisins í fimm sparisjóðum og var bókfært virði stofnfjárhlutanna um 1,7 milljarðar í árslok 2011. Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins er talið að ávinningur ríkisins af því að kaupa hugsanlega hlut Arion banka í AFL sparisjóði geti falist í því að eignarhlutar þess í öðrum sparisjóðum yrðu verðmætari fyrir vikið. Meiri möguleikar væru á hagræðingu ef til staðar sé lánastofnun sem gæti orðið undirstaðan að endurreisn sparisjóðakerfisins.

Mikil óvissa hefur verið um fjárhagsstöðu AFLs sparisjóðs. Eftir dóm Hæstaréttar í febrúar 2012 um ólögmæti afturvirkni vaxtaútreiknings erlendra lána þurfti sjóðurinn að færa 789 milljónir til gjalda í ársreikning. Stjórnendur sjóðsins telja hins vegar að sambærilegir lánasamningar við Arion banka séu ólöglegir og sú skuld eigi að lækka um 941 milljón. Ekki liggur fyrir viðurkenning Arion banka á því að samningarnir séu ólögmætir.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK