„Í dauðafæri að verða næsta Össur eða Marel“

Georg Lúðvíksson, forstjóri Meniga.
Georg Lúðvíksson, forstjóri Meniga. Þórður Arnar Þórðarson

Georg Lúðvíksson, forstjóri Meniga, vonast til þess að velta fyrirtækisins tífaldist á næstu árum. „Það mun ekki gerast á næstu tveimur árum en gangi allt að óskum mun Meniga velta fimm til tíu milljörðum króna innan fárra ára. Við stefnum á að byggja upp stöndugt fyrirtæki á skömmum tíma,“ segir hann í ítarlegu viðtali í viðskiptablaði Morgunblaðsins. „Við erum í raun í dauðafæri að verða næsta Össur eða Marel.“

Meniga er markaðsleiðandi í Evrópu á sviði heimilisfjármálahugbúnaðar með átján viðskiptavini í fjórtán löndum. Samkeppnin er að sögn Georgs hörð en Meniga hefur hingað til gengið vel í samkeppninni.

Georg stofnaði Meniga ásamt bræðrunum Ásgeiri Erni Ásgeirssyni, sem leiddi áður þróun Einkabanka Landsbankans, og Viggó Ásgeirssyni, fyrrverandi markaðsstjóra Landsbankans. Meniga fékk Nýsköpunarverðlaun Íslands í liðinni viku.

Starfsmenn eru 80

Fyrirtækið var stofnað fyrir fimm árum og eru starfsmenn orðnir 80 í þremur löndum, þar af um 60 á Íslandi. Meniga velti tæplega fimm milljónum evra í fyrra eða um 720 milljónum íslenskra króna. Um 95% teknanna komu erlendis frá. „Hlutfall erlendra tekna mun örugglega aukast,“ segir hann. Þegar hugbúnaðurinn hafi verið innleiddur hjá öllum bönkunum sem samið hafi verið við, munu lausnir Meniga ná til yfir 15 milljóna manna.

Heildarfjármögnun Meniga er um milljarður króna og miðað við nýjustu hlutafjáraukningu er félagið metið á 2,6 milljarða króna, að því er fram hefur komið á mbl.is. Frumtak, sjóður sem fjárfestir í nýsköpunarfyrirtækjum og er í eigu Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins, stóru viðskiptabankanna þriggja og lífeyrissjóða, lagði til fyrstu fjármögnunina, 90 milljónir króna, í apríl 2010. Það fjármagn var nýtt til að koma á fót alþjóðlegri söluskrifstofu í Stokkhólmi.

Síðasta sumar var gengið frá um 800 milljón króna fjármögnun. Fjármögnunin var leidd af fjárfestingafélaginu Kjölfestu, sem er í eigu lífeyrissjóða, en Frumtak tók einnig þátt í fjármögnuninni og bætti við hlut sinn. Í mars á þessu ári var svo upplýst um að hollenskir og svissneskir fjárfestar hefðu lagt félaginu til 1,5 milljónir evra, eða um 230 milljónir íslenskra króna í skiptum fyrir um 9% hlut.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK