Landsbankinn keypti lóð undir væntanlegar höfuðstöðvar sínar við Austurhöfn á einn milljarð króna af Situs ehf., dótturfélagi Reykjavíkurborgar og ríkisins. Félagið seldi þrjár aðrar lóðir fyrir 3,4 milljarða, en samtals fengust 4.332 milljónir fyrir lóðirnar. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Situs.
Fasteignaþróunarfélagið Stólpar III greiddi 750 milljónir fyrir reit númer 1 á svæðinu, en Landbakki ehf. borgaði tæpar 800 milljónir fyrir reit númer 2. Þar er nú gert ráð fyrir fyrir 10 milljarða uppbyggingu íbúðahúsnæðis. Auro Investment, sem ætlar að byggja fimm stjörnu hótel á reit númer 5 greiddi 1,825 milljarða fyrir sína lóð.
Heildar byggingarmagn á reitnum sem Stólpar kaupa er 9.750 fermetrar, en það gerir 76.923 krónur á hvern fermetra, en það var hæsta meðalverð sem fékkst á fermetra af þessum lóðum. Árni Geir Pálsson, verkefnastjóri hjá Situs, segir að það helgist meðal annars af því að lóðin sé næst miðbænum og þá hafi menn talið þetta vera verðið sem þyrfti til að tryggja sér lóðina, en tvö félög buðu í reit 1. Segir Árni að hitt tilboðið hafi verið mjög svipað, en örlítið lægra.
Landbakki er dótturfélag Landeyjar sem er í eigu Arion banka. Félagið fékk lóðina með kauprétti sem fékkst í tengslum við uppgjör milli ÍAV, Austurhafnar og LBI á árinu 2009, en lóðin var í eigu Ármannsfells, dótturfélags ÍAV. Verð á fermetra á reit 2 nam 51.610 krónum, en heildar byggingarmagn á reitnum er 15.500 fermetrar.
Á reit 5 verður fyrrnefnt hótel, en Auro mun þar reisa 30 þúsund fermetra fimm stjörnu hótel. Félagið er í eigu Auro Investments Partners, Mannvits og arkitektastofunnar T.ark. Verð á fermetra á reitnum er 60.833 krónur.
Heildar byggingarmagn á reit 6, þar sem Landsbankinn hefur skoðað að byggja nýjar höfuðstöðvar, er 16.500 fermetrar samkvæmt deiliskipulagi. Miðað við það magn er verð á fermetra 58 þúsund krónur. Árni segir að tveir aðilar hafi boðið í lóðina, en tilboð Landsbankans var um 15% hærra en hitt boðið.
Situs er í 54% eigu Ríkissjóðs og 46% eigu Reykjavíkurborgar. Árið 2013 var rekstur tónlistarhússins Hörpu aðskilinn frá eignarhaldi á byggingarrétti á svæði 2 í Reykjavík og hefur Situs frá þeim tíma haldið utan um söluna og uppgjöri við kröfuhafa.
Enn á eftir að ganga frá kaupunum á reit 7, en Auro investment var eina félagið sem bauð í lóðina og er unnið að því að klára fjármögnun við þau kaup.