Starfsmannafélag Reykjavíkur útnefndi í gær Seltjarnarnesbæ Stofnun ársins Borg og bær árið 2014 í flokki minni stofnanna. Viðurkenninguna hlaut Fjárhags- og stjórnsýslusvið bæjarins en í hópi stærri stofnana hlaut Fræðslusvið Seltjarnarness þriðju verðlaun. Þá hlutu bæði sviðin viðurkenningu sem Fyrirmyndarstofnun ársins 2014. Önnur svið innan bæjarins lentu líka ofarlega á listanum.
„Þessi einstaki árangur þykir endurspegla þann kraft og metnað sem starfsfólk Seltjarnarnesbæjar býr yfir og er góð hvatning til að halda áfram á sömu braut og hlúa að því sem betur má fara. Viðurkenningarnar eru byggðar á stærstu reglulegu vinnumarkaðskönnun, sem framkvæmd er hér á landi og gefur mikilvægar upplýsingar um stöðu starfsmanna á vinnumarkaði. Í henni er leitað eftir viðhorfi félagsmanna til vinnu sinnar og yfirmanna, líðan þeirra í starfi, starfsumhverfi, tækjabúnað og hvernig samskiptum er háttað á vinnustaðnum,“ segir í tilkynningu frá bænum.
Sextíu og tvær stofnanir komust á lista í ár.
Þetta er í þriðja sinn sem Starfsmannafélag Reykjavíkur veitir slíka viðurkenningu, en fyrir liðlega ári síðan sameinaðist Starfsmannafélag Seltjarnarness Starfsmannafélag Reykjavíkur.