Landsbankinn hefur gefið út nýja þjóðhagsspá hagfræðideildar bankans, en þar er því spáð að hagvöxtur næsta árs muni verða 5,5%, en það er ríflega tvöfalt meira en spáð var í nóvember á síðasta ári. Svipaða hækkunarsögu er að segja fyrir árið 2016, en nú er gert ráð fyrir 3,4% hagvexti í stað 1,7% í nóvemberspánni.
Gangi spáin eftir mun hagvöxtur á þessu ári og næstu tveimur árum vera rúmlega 4% að meðaltali. Bankinn spáir því að verðbólgan verði nálægt markmiði það sem eftir lifir árs en hækki nokkuð skarpt strax í upphafi næsta árs og haldist nærri efri vikmörkum verðbólgumarkmiðsins, sem er 4%, út spátímabilið til ársins 2016
Reiknað er með því að stýrivextir verði óbreyttir út þetta ár en hækki um hálft prósentustig á næsta ári og um 0,75 prósentustig árið 2016. Bankinn spáir áframhaldandi mikilli hækkun húsnæðisverðs, eða um 9% á þessu ári, 7,5% á árinu 2015 og 7% á árinu 2016.
Hagvöxtur á síðasta ári var 3,3% samkvæmt fyrsta mati Hagstofu Íslands. Það er heldur meiri hagvöxtur en gert var ráð fyrir í nóvemberspá Hagfræðideildar, sem var 2,5%. Segir í spá Landsbankans að nú sé talið að hagvaxtarhorfurnar fyrir árið 2014 hafi batnað nokkuð frá því í nóvember og spáð er 3,2% vexti í stað 2,9%.