Milljarða fjárfestingar vegna HM

Augu heimsins munu beinast að Brasilíu næstu vikurnar en Heimsmeistaramótið …
Augu heimsins munu beinast að Brasilíu næstu vikurnar en Heimsmeistaramótið í knattspyrnu hefst þar í landi í kvöld. AFP

Greiningarfyrirtækið Moody's spáir því að landsframleiðsla Brasilíu muni aukast um 0,4% til næstu tíu ára vegna Heimsmeistaramótsins í knattspyrnu sem hefst í landinu í kvöld með opnunarleik Brasilíu og Króatíu.

Björn Berg Gunnarsson, deildarstjóri fræðslu og viðskiptaþróunar VÍB, eignastýringarþjónustu Íslandsbanka, segir hins vegar að erfitt sé að meta þau efnahagslegu langtímaáhrif sem mótið muni hafa. „Það er erfitt að segja fyrir um áhrifin og þá greinir knattspyrnuspekinga jafnframt á um hvort þau séu yfirhöfuð jákvæð eða jafnvel neikvæð,“ segir hann.

Björn Berg bendir á að talið sé að kostnaðurinn við mótið í ár verði um 1.580 milljarða króna. Hins vegar sé rétt að hafa það í huga að brasilíska hagkerfið sé ansi stórt. „Þannig að þrátt fyrir að þetta séu stórar krónutölur, þá hefur mótið tiltölulega lítil efnahagsleg áhrif á landið yfir það heila,“ segir hann.

Í skýrslu Moody's er meðal annars bent á að fjárfestingar Brasilíumanna í innviðum fyrir mótið nemi aðeins um 0,7 prósentum af áætluðum fjárfestingum í landinu á árunum 2010 til 2014.

Björn Berg segir að leiða megi að því líkur að efnahagslegu áhrifin verði minnst í stórborgunum Rio de Janeiro og Sao Paulo. „Þar eru innviðirnir að miklu leyti til staðar og fjárfestingar sem hlutfall af tekjum frekar litlar. En það er spurning með aðrar minni borgir sem þurfa að ráðast í töluverðar framkvæmdir og gjörbreyta ýmsum hverfum. Þær þurfa að bera mikinn kostnað sjálfar, en það á eftir að koma í ljós hvort fjárfestingarnar komi til með að gagnast þeim til lengri tíma.“

VÍB mun fjalla ýtarlega um fjármálahlið mótsins á meðan því stendur í sumar, en hér má finna HM-síðu félagsins.

Efnahagsstaðan lakari í dag

Ákveðið var að halda mótið í Brasilíu árið 2007. Þá var hagvöxtur í landinu 6,1%, peningar streymdu inn í landið og alþjóðleg fjárfestingafélög sýndu brasilísku efnahagslífi ansi mikinn áhuga. Verð á fasteignum og hrávörum fór hratt vaxandi og hafði hlutabréfamarkaðurinn í Brasilíu sjaldan verið eins líflegur.

Staðan er hins vegar breytt núna, sjö árum síðar. Hagfræðingar hafa statt og stöðugt bent á ósjálfbæra skuldastöðu ríkisins, lánshæfismatið hefur farið versnandi og fólksflótti aukist til muna.

Mikil ólga er í landinu vegna kostnaðarins við mótið og á almenningur erfitt með að sætta sig við þau miklu fjárútlát sem mótið krefst. Eitthvað hefur verið um mótmæli á götum Rio, en í skýrslu sinni bendir Moody's á að frekari mótmæli geti haft umtalsverð neikvæð áhrif á sýn alþjóðasamfélagsins á Brasilíu. Það sama gildir ef innviðirnir, sem hafa verið byggðir upp á undanförnum mánuðum, dugi ekki til að taka á móti þeim fjölda knattspyrnuáhugamanna sem sækja landið heim vegna mótsins.

Fastlega er reiknað með því að sala á ýmsum varningi, …
Fastlega er reiknað með því að sala á ýmsum varningi, svo sem knattspyrnutreyjum, muni taka við sér á meðan HM stendur. AFP
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Loka