Maðurinn sem hatar Herbalife

William Ackman er stofnandi og stjórnarformaður vogunarsjóðsins Pershing Square.
William Ackman er stofnandi og stjórnarformaður vogunarsjóðsins Pershing Square. AFP

Hann hefur einsett sér að knésetja fyrirtækið Herbalife og svífst nánast einskis í þeirri herferð sinni. Hann hefur ríkulegra, fjárhagslegra hagsmuna að gæta, þar sem hann tók í desember árið 2012 skortstöðu í fyrirtækinu í gegnum vogunarsjóð sinn, Pershing Square, sjóð sem hann stofnaði árið 2004.

En hver er hann, Bill Ackman, sem segir forstjóra Herbalife „rándýr“ og að fyrirtækið sé ein stór „svikamylla“?

William Albert Ackman er 48 ára, fæddur í New York, 11. maí árið 1966. Hann giftist Karen Ann Herskovitz árið 1994 og eiga þau þrjú börn.

Ackman segir að hann og fjölskylda hans hafi unnið sig upp í bandarísku samfélagi með gífurlegri vinnusemi, allt frá því að langafi hans flutti til landsins frá Rússlandi í kringum 1880. „Langafi minn kom frá Rússlandi. Hann endaði í Newark,“ sagði Ackman í ræðu sem hann hélt í New York í gær þar sem hann lofaði að afhjúpa ósvífna viðskiptahætti Herbalife. Hann sagði langafa sinn ekki hafa haft neina sérkunnáttu, „en hann var vinnusamur.“

Ackman sagði afa langsinn hafa fengið lærlingsstöðu hjá klæðskera, síðar unnið sig upp og að lokum stofnað eigin verksmiðju sem framleiddi jakka.

„Þetta er glæpafyrirtæki, ok?“

„Hann eignaðist fjögur börn, þeirra á meðal var afi minn. Afi minn gekk í menntaskóla og hann naut velgengni sem fasteignasali. Afi minn átti einn son, sem fór í háskóla. Hann faðir minn fór í viðskiptaskóla,“ sagði Ackman og klökknaði. Hann snéri sér svo að kjarna málsins: „Michael Johnson er rándýr, ok? Þetta er glæpafyrirtæki, ok? Ég vona að þú sért að hlusta Michael. Það er tímabært að loka fyrirtækinu,“ sagði hann um forstjóra Herbalife.

Skemmst er frá því að segja að þrátt fyrir langa ræðu og 50 milljóna dala rannsókn vogunarsjóðsins á Herbalife, hækkuðu hlutabréf í fyrirtækinu í gær um 25%. Skotið geigaði, segja sérfræðingarnir á Wall Street.

Stofnaði fyrirtæki strax að loknu námi

Faðir Ackmans,  Lawrence David, er stjórnarformaður fjárfestingasjóðs í New York sem sérhæfir sig í fasteignaviðskiptum. Ackman gekk í virta skóla en hann útskrifaðist úr MBA-námi í Harvard háskóla árið 1992. Sama ár stofnaði hann í félagi við skólabróður sinn fjárfestingafélagið Gotham Partners. Fyrstu árin gekk reksturinn vel og þegar best lét námu eignir félagsins um 500 milljónum dala, um 57 milljörðum króna. Svo fór að halla undan fæti og var félagið leyst upp, um áratug eftir að það var stofnað.

Ackman var þó ekki af baki dottinn og stofnaði Pershing Square. Umsvifin voru lítil í fyrstu en í dag sýslar sjóðurinn með 12 milljarða bandaríkjadala á ári, um 1.400 milljarða íslenskra króna. Viðskiptin hafa þó ekki alltaf verið eintómur dans á rósum, sérstaklega ekki undanfarin ár, m.a. vegna skortstöðu sem sjóðurinn tók í Herbalife. Með slíku veðjar sjóðurinn á að verð bréfa í fyrirtækinu muni falla í verði. Engu að síður var ávöxt­un sjóðsins 25% á fyrstu sex mánuðum þessa árs, ein sú besta meðal slíkra sjóða í Banda­ríkj­un­um.

Sjálfur er Ackman langt frá því að vera á flæðiskeri staddur. Samkvæmt upplýsingum Forbes nema eignir hans 1,5 milljörðum dala, um 173 milljörðum króna. Það þýðir að hann er í 1211. sæti yfir ríkustu milljarðamæringa heims. 

342 glærur um Herbalife

Meðal afreka Ackmans er að halda eina lengstu glærukynningu sem um getur. Kynninguna hélt hann í tilefni af því að sjóður hans hafði tekið skortstöðu í Herbalife. Á 342 glærum rökstuddi hann þá skoðun sína að Herbalife væri dauðadæmt. Kom hann þá þegar fram með þá kenningu sína að Herbalife byggði á píramídasvindli, dreifiaðilar högnuðust meira af því að fá sífellt fleiri til liðs við sig heldur en að selja beinlínis vörur fyrirtækisins. Skortsala gengur í stuttu máli út á það að fá lánuð hlutabréf, selja þau svo og vonast til geta keypt þau aftur á lægra verði. Það þýðir að vogunarsjóður Ackmans gæti hagnast verulega, falli bréfin í verði. Sú hefur þó alls ekki orðið raunin og bréf í Herbalife hafa hækkað umtalsvert undanfarin tvö ár. Og tíminn er að renna út. Fari bréfin ekki að lækka líkt og Ackman veðjar á, mun sjóður hans tapa umtalsverðum fjármunum í byrjun næsta árs. 

Það er því kannski ekkert undarlegt að hann sé farinn að örvænta. Að hann hafi blandað vinnusamri fjölskyldu sinni í kynninguna í New York í gær og næstum brostið í grát. Að hann sé, eins og hann sjálfur sagði í gær, tilbúinn að ganga eins langt og hann þurfi til að fletta ofan af „svikamyllu“ Herbalife.

En það virðist einfaldlega ekki vera að takast. 

Herbalife sérhæfir sig í framleiðslu og dreifingu fæðubótaefna.
Herbalife sérhæfir sig í framleiðslu og dreifingu fæðubótaefna.
Bill Ackman flytur ræðu sína á Manhattan í gær.
Bill Ackman flytur ræðu sína á Manhattan í gær. Skjáskot af Youtube
Herbalife virðist græða á brölti Ackmans.
Herbalife virðist græða á brölti Ackmans. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK