Geri ekki sömu mistök og Tékkar

Ýmsir eigendur íbúðahótela hafa áhyggjur af hugsanlegri offjölgun á gistirými …
Ýmsir eigendur íbúðahótela hafa áhyggjur af hugsanlegri offjölgun á gistirými í Reykjavík vegna fyrirhugaðra hótela og mikils fjölda leiguíbúða. mbl.is/Þórður

Jökull Tómasson, eigandi K Apartments, er með 57 íbúðir í útleigu í miðbæ Reykjavíkur.

Hann segir flest íbúðahótelin greiða 20-27% þóknun af söluverði gistingar til bókunarsíðna á borð við Booking og Expedia. „Til viðbótar greiðum við ýmis gjöld, þar með talinn 7% virðisaukaskatt og gistináttagjald, svo er náttúrlega starfsmannakostnaður og viðhald.“

Spurður um meðalnýtingu hjá íbúðahótelum tekur Jökull bókanir hjá K Apartments í fyrra sem dæmi. Meðalnýtingin árið 2013 var 70% yfir árið og 80-87% yfir sumarið. Minnsta nýtingin var í janúar, eða um 58%. Meðalverð á gistingu hjá K Apartments var 97 evrur í fyrra, eða um 15.200 krónur.

Meðalverðið 23 þúsund

Meðalverðið í júní til ágúst 2013 var 150 evrur, eða 23.000 krónur, eða 18.400 til 20.010 krónur, eftir því hvort nýtingin er 80% eða 87%.

Meðalnýtingin hjá K Apartments er yfirfærð á verð á gistingu hjá nokkrum fyrirtækjum hér til hliðar.

Fram hefur komið í umfjöllun Morgunblaðsins og mbl.is um hótelgeirann á síðustu dögum, að ýmsir eigendur íbúðahótela hafi áhyggjur af hugsanlegri offjölgun á gistirými í Reykjavík vegna fyrirhugaðra hótela og mikils fjölda leiguíbúða.

Spurður út í þessi sjónarmið segir Jökull mikilvægt að hér verði ekki gerð sömu mistök og voru gerð í Prag á síðasta áratug. Borgin hafi komist í tísku sem áfangastaður og heimamenn brugðist við aukinni eftirspurn með mikilli fjölgun gististaða.

Offramboð myndaðist í Prag

Afleiðingin var sú að offramboð myndaðist þannig að meðalverð á gistingu lækkaði úr 200 evrum í um 40 evrur á nóttina. Hefur verðið ekki jafnað sig með tímanum.

Með þetta í huga telur Jökull brýnt að stuðlað verði að fjölgun flugferða til Íslands á verði sem sé viðráðanlegt fyrir hinn dæmigerða ferðamann. Jökull telur hættu á að ella geti orðið mikil verðlækkun á hótelmarkaði, einkum yfir veturinn.

Máli sínu til stuðnings bendir hann á að greiningardeildir Bookings og Expedia, þar sem um 6.000 manns starfa, hafi veitt því athygli sl. vor að færri bókanir höfðu þá borist í hótel og íbúðir á Íslandi en árið áður. Ein af ástæðum var talin hækkandi verð fyrir gistingu á Íslandi. Að mati Jökuls sýnir það að Ísland megi „ekki verðleggja sig út af markaðnum“. Bókunun hafi síðan fjölgað með tilkomu Easy Jet.

„Það á mikinn þátt í að bókunum tók svo að fjölga að Easy Jet hefur staðið sig vel í því að lækka verð. Það þarf að lækka verð frekar til að lokka hinn dæmigerða ferðamann til landsins. Það er ekki að ganga upp þetta plott, að allir fái mikið í sinn hlut, flugfélög og hótel. Þetta er ekki eins ábatasamt og margir virðast álíta.“

Þarf fleiri til að fylla rýmið

„Breska flugfélagið Flybe er byrjað að fljúga til Íslands frá Birmingham. Það flugfélag þarf að byrja að fjölga ferðunum til að markaðurinn stækki inn í allt þetta hótelrými sem er verið að búa til. Fjölgun ferðamanna getur ekki orðið með Norrænu. Þeir geta bara komið í flugi. Því þurfum við að fá inn ný flugfélög eða opna frekar inn á Ameríkumarkað til að dæmið gangi upp. Easy Jet er nú orðið stærra á íslenska markaðnum og með fleiri farþega en Wow air. Samt eru félögin tvö saman með aðeins 20% af heildarmarkaðnum. Icelandair er með afganginn.“

– Er því ljóst að einhverjir munu tapa sem koma inn á markaðinn?

„Já, það verður bakslag eins og hefur orðið í borgum þar sem fjölgun gististaða er of ör, sérstaklega ef verðið á leigunni [sem leiguhótelin þurfa að borga fasteignaeigendum] hækkar mikið. Svo jafnast það vonandi út. Prag hefur til dæmis aldrei jafnað sig. Hagkerfið þar í borg er svipað og á Íslandi á þann átt að Tékkland er tiltölulega nýlega komið með sjálfstæði. Athafnamenn í Prag eiga stundum erfitt með að hafa hemil á sér, eins og við Íslendingar stundum.“

Verður 6-10% af markaðnum

Jökull telur aðspurður ekki raunhæft að sterkefnuðum ferðamönnum á Íslandi muni fjölga hratt næstu ár.

„Markaðurinn fyrir efnaða ferðamenn mun eitthvað vaxa en verður hins vegar alltaf í hlutfalli við það sem þekkist erlendis. Þar er þessi hópur 6-10% af heildarmarkaðnum. Mesta fjölgunin verður í ferðamönnum sem hafa aldrei haft ráð á því að koma til Íslands vegna þess að það var of dýrt, en hafa haft ráð á því eftir hrun,“ segir Jökull sem telur ferðaþjónustuna á mörkum þess að geta vaxið frekar, vegna hækkandi verðs á gistingu.

„Það má ekki gleyma því að við erum í samkeppni við aðrar borgir. Ferðamaður í til dæmis Bretlandi þarf að velja Ísland. En ef íbúð á Íslandi, eða hótelherbergi, kostar 200 evrur í dag, en 120 evrur 2010 eða 2011 og 2012, þá verðleggjum við okkur út úr stóra markaðnum. Þá velur fólk að fara annað.

Bretinn getur til dæmis farið með fjölskylduna til Grikklands í viku fyrir 800 pund en komið til Íslands og borgað 3.000 pund. Þannig að ég held að fjölgunin muni ekki halda áfram nema verð á gistingu og flugi verði áfram samkeppnishæft.

Ég held að það muni koma verðfall á markaðnum þegar öll þessi hótel koma á markaðinn næsta sumar. Því held ég að við ættum að skoða vel það sem kom fyrir í Prag. Það sama gæti komið fyrir okkur. Eigendur íbúðahótela þurfa allir orðið að greiða mjög háa húsaleigu og verða því að geta selt nóttina á 200 evrur. Mikill fjöldi hótela er að koma á markaðinn og það ásamt miklum fjölda leiguíbúða sem einstaklingar eiga mun að óbreyttu leiða til verðhruns. Verðið gæti því lækkað niður í 120, 99 evrur.

Við félagar mínir í bransanum undirbúum okkur undir verðlækkun. Það er ekki hægt að tvöfalda framboð á gistingu í Reykjavík á meðan flugið er ekki að tvöfaldast,“ segir Jökull og nefnir hvernig dæmigerð húsaleiga fyrir meðalstórt hótelherbergi í miðborginni hafi hækkað úr 90-100 þúsund krónum árið 2011 í allt að 260 þúsund krónur nú. Eigendur fasteigna vilji „stóra sneið af kökunni“.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK