Launaskrið stjórnenda staðreynd

Þorsteinn Víglundsson framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins.
Þorsteinn Víglundsson framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins. Ómar Óskarsson

Þegar þróun launa stjórnenda er skoðuð yfir lengra tímabil má sjá að þau hafa hækkað talsvert umfram laun almennt á vinnumarkaði. Í gær var haft eftir Þorsteini Víglundssyni, framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins að horfa þyrfti á heildarmyndina áður en umtalsverð hækkun stjórnenda á síðasta ári væri gagnrýnd.

Ekki horft til mesta hækkunarársins

Þorsteinn vitnaði til úttektar samtakanna frá árunum 2006 til 2013, en þar kom fram að almenn laun á vinnumarkaði hafa hækkað umfram laun stjórnenda. Þar er aftur á móti ekki horft til þess að laun stjórnenda hækkuðu talsvert umfram laun almennt á árunum þar á undan og lækkunin árið 2009 var í raun leiðrétting á fyrri hækkunum.

Stjórnendur hafa hækkað meira í launum síðustu 15 ár

Gögn Hagstofunnar um flokkun launa eftir mismunandi starfstétt ná aftur til ársins 1998. Þegar þau eru skoðuð má sjá að á tímabilinu hafa laun stjórnenda hækkað um 229% meðan almenn laun hafa hækkað um 190%.

Mesta hækkunarskeiðið er frá 2004 til 2006, en frá 2004 til 2005 hækka laun almennt um 15% og stjórnenda um 24% og árið eftir er hækkunin almennt 11% og stjórnenda 17,3%. Fyrir þann tíma höfðu hækkanir verið mjög jafnar og aðeins munað rúmlega prósentustigi á þessum tveimur flokkum. Þannig hækkuðu laun almennt á árunum 1998 til 2004 um 56,25% meðan laun stjórnenda hækkuðu um 57,6%.

Með þeirri hækkun sem stjórnendur fengu umfram almennan markað á árunum þar á eftir voru stjórnendur komnir nokkuð fram úr öðrum, en hækkun þeirra frá 1998 til 2008 var 187% meðan laun almennt hækkuðu um 136%.

Leiðrétting í kringum hrunið

Frá 2008 til 2009 féllu laun aftur á móti talsvert og kom það verr niður á stjórnendum en almennt á markaði. Þannig lækkuðu stjórnendur um 17% meðan laun almennt fóru niður um 6,8%. Með þessari lækkun jafnaðist bilið aftur, en uppsöfnuð hækkun frá 1998 til 2009 var 120% fyrir markaðinn í heild, en 138% fyrir stjórnendur.

Eftir þetta hefur vegur stjórnenda heldur vænkast umfram almennar launahækkanir á markaði og er uppsafnað hlutfall frá 1998 nú komið í 229% fyrir stjórnendur meðan það er 190% almennt.

Vill horfa á heildarmyndina

Um helgina birti Frjáls verslun samantekt yfir tekjur stjórnenda á íslenskum vinnumarkaði, en þar kom fram að laun æðstu stjórnenda 200 stærstu fyrirtækja landsins hafi hækkað um 13% milli ára. 

Í ljósi þessarar niðurstöðu mætti Þorsteinn Víglundsson í Morgunútvarpið á Rás 2 og sagði að nauðsynlegt væri að horfa á heildarmyndina. Taldi hann að launaskrið stjórnenda í fyrra rökstyðji ekki neinar leiðréttingakröfur annarra hópa, sem Þorsteinn sagði réttilega að hefðu hækkað örlítið umfram stjórnendur. Aftur á móti er þá aðeins horft til tímabilsins 2005 til 2013 og mesta lækkunarár stjórnenda tekið með, en ekki mesta hækkunarárið.

Krónutala og prósentutala

Rétt er að taka fram að hér er ekki horft á breytingu í krónum talið, en stjórnendur eru alla jafna með hærri tekjur en almennt gerist. Prósentuhækkun hefur því almennt þau áhrif að laun stjórnenda hækka meira í krónum talið en fyrir þá sem hafa lægri tekjur.

Laun á almennum vinnumarkaði eftir starfstétt frá 1998 til 2013. …
Laun á almennum vinnumarkaði eftir starfstétt frá 1998 til 2013. Árin fyrir hrun hækkuðu laun stjórnenda vel umfram laun almennt, en í hruninu minnkaði bilið aftur. Í fyrra fóru stjórendur svo aftur á skrið. Mynd/mbl.is
Laun stjórnenda hafa hækkað um 239% síðustu 15 ár, meðan …
Laun stjórnenda hafa hækkað um 239% síðustu 15 ár, meðan laun almennt hafa hækkað um 190%. mbl.is/Golli
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK