Orðið dýrt að flytja inn erlent vinnuafl

Stakkholt. Á þessum reit við Hlemm er verið að byggja …
Stakkholt. Á þessum reit við Hlemm er verið að byggja 139 íbúðir og bæta 80 herbergjum við Hótel Klett Kristinn Ingvarsson

Á árunum fyrir efnahagshrunið komu þúsundir erlendra verkamanna til landsins vegna skorts á innlendum starfskröftum í byggingariðnaði. Hækkandi húsnæðiskostnaður á vissum svæðum gæti minnkað líkurnar á því að sagan endurtaki sig í sama mæli nú þegar tugmilljarða framkvæmdir eru fyrirhugaðar á höfuðborgarsvæðinu á næstu árum.

Gylfi Gíslason, framkvæmdastjóri JÁVERKS, segir eina afleiðingu hækkandi húsnæðiskostnaðar á höfuðborgarsvæðinu þá að Ísland sé nú síður fýsilegur áfangastaður fyrir erlent verkafólk en á bóluárunum.

„Það er lítið framboð af lausum iðnaðarmönnum í landinu. Á þensluárunum fyrir hrun var mjög auðvelt að leysa málin með erlendu vinnuafli. Það hefur breyst. Það er ekki nóg með að húsnæði undir slíkan mannskap sé dýrt. Það er hreinlega ekki til. Það er því miklu erfiðara að leysa málin með innfluttu, sveigjanlegu vinnuafli. Ef sú leið er farin er hún miklu dýrari en áður.

Ég geri ráð fyrir að fyrirtæki greiði mönnum sömu laun, óháð upprunalandi. Ef fyrirtækin greiða fyrir húsnæði undir starfsmennina hækkar sá kostnaður vegna þeirrar stöðu sem ég hef lýst. Þessir starfsmenn eru því dýrari en ella væri. Sá kostnaður hlýtur að smitast í byggingarkostnaðinn. Að lokum borgar viðskiptavinurinn slíkan kostnað.

Ef starfsmennirnir reyna að útvega sér húsnæði sjálfir er húsnæðiskostnaður þeirra mun meiri en á bóluárunum. Af því leiðir að það er minna áhugavert að fara til Íslands til að vinna en hugsanlega annars staðar. Einhvers staðar kemur þessi kostnaður fram. Það er alveg ljóst.“

Flytja ekki inn vinnuafl

Gylfi Ómar Héðinsson, annar eigandi BYGG, Byggingarfélags Gylfa og Gunnars, segir fyrirtækið notast við vinnuafl sem er búsett á Íslandi. Hann sér ekki fyrir sér að fyrirtækið muni flytja sérstaklega inn vinnuafl á næstunni til tímabundinna verkefna á vegum BYGG.

Sigurður R. Ragnarsson, framkvæmdastjóri hjá Íslenskum aðalverktökum, telur einsýnt að flytja þurfi inn erlent vinnuafl á næstunni.

„Ég tel það augljóst miðað við stöðuna á markaði í dag. Það blasir við, nema okkur takist að endurheimta eitthvað af fólkinu sem fór til Noregs eftir efnahagshrunið,“ segir Sigurður og vísar til straums íslenskra iðnaðarmanna til Noregs eftir að byggingargeirinn hrundi 2008.

Spurður hvort hækkandi húsnæðiskostnaður, vegna hækkandi raunverðs og leiguverðs fasteigna á höfuðborgarsvæðinu, hafi í för með sér að kostnaður við erlent vinnuafl hafi aukist segir Sigurður það augljóst. Hins vegar geti byggingarfyrirtækin fundið hentugt íbúðarhúsnæði með hagstæðari leigu á jöðrum höfuðborgarsvæðisins, til dæmis á Suðurnesjum, þar sem verð er lægra og meira framboð af húsnæði.

Fá fastar greiðslur í evrum

Spurður um áhrif gengisins á áhuga erlends vinnuafls á að taka störf í íslenskum byggingariðnaði segir Sigurður að jafnan sé um fastar greiðslur í erlendri mynt að ræða.

„Launin sem við greiðum nú eru hærri í krónum talið en þau voru fyrir hrun. Erlendir iðnaðar- og verkamenn fá yfirleitt borgað í erlendri mynt, ef þeir eru fengnir hingað í afmörkuð verkefni. Fyrir þá er útkoman sú sama, þeir fá jafn margar evrur útborgaðar. Við þurfum hins vegar að borga meira fyrir evruna. Það ásamt hærri húsnæðiskostnaði þýðir að kostnaður er nú meiri en hann var fyrir hrun,“ segir Sigurður sem telur að bágborið atvinnuástand víða í Evrópu geti haft áhrif á áhuga erlendra iðnaðar- og verkamanna á að freista gæfunnar á Íslandi. Má í því efni rifja upp að atvinnuleysi á evrusvæðinu var að meðaltali 11,5% í júní en 3,2% á Íslandi samkvæmt tölum frá Vinnumálastofnun.

Sigurður segir ÍAV hafa haft samband við starfsmannaleigur sem það skipti við fyrir hrunið. Málin séu ekki komin lengra að sinni.

Hins vegar hafi ÍAV notast við erlent vinnuafl við gerð Vaðlaheiðarganga að hluta til, enda hafi ekki fengist innlendur mannskapur í verkið. Rúmt ár er síðan verkið hófst. „Við vildum manna verkið eins og kostur var með Íslendingum en það hefur ekki tekist,“ segir Sigurður.

Gerir byggingar dýrari

Heimildarmaður í byggingariðnaði, sem vildi ekki láta nafns síns getið, segir skort á sérhæfðum iðnaðarmönnum í Reykjavík. Það sé hins vegar auðveldara að finna byggingarverkamenn af erlendum uppruna, sem búsettir eru hér á landi, til almennra verka á borð við mótun og uppsteypu.

Sami heimildarmaður telur að dýrt verði að sækja erlent vinnuafl til útlanda. Greiða þurfi sömu laun og tíðkist á Íslandi og bæta svo við ýmsum kostnaði sem fylgi því að flytja inn starfskrafta og finna þeim hentugt húsnæði.

Spurður hvaða áhrif þetta hafi á söluverð nýrra fasteigna bendir viðmælandinn á að markaðurinn ráði verðinu. Aukinn kostnaður við mannahald geti haft í för með sér að verktakar velji að byggja miðsvæðis þar sem hægt er að selja nýjar íbúðir á hærra verði en á jöðrum höfuðborgarsvæðisins.

„Það sem er minna arðbært að byggja verður útundan. Íbúðaverð er alltof lágt miðað við kostnað. Ef dýrt uppihald bætist þar við er dæmið hætt að ganga upp í mörgum tilfellum. Tilkostnaðurinn verður of hár,“ sagði viðmælandinn.

Gylfi Gíslason.
Gylfi Gíslason.
Sigurður R. Ragnarsson.
Sigurður R. Ragnarsson.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK