Fasteignir á viðráðanlegu verði

mbl.is/Valdís

Þrátt fyrir að fasteignaverð hér á landi hafi hækkað töluvert undanfarin ár þá eru fasteignir í miðbæ Reykjavíkur, mældar í evrum, sem teljast til dýrustu eigna landsins, með töluvert lágan verðmiða í samanburði við aðrar borgir í Evrópu og Norður Ameríku.

Þetta er mat greiningardeildar Arion banka, sem fjallar um málið í Markaðspunktum sínum. Telur greiningardeildin að velta megi því fyrir sér hvort fasteignir í miðbænum séu, þrátt fyrir allt, lágt verðlagðar.

Greiningardeildin rifjar upp að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn fylgist náið með þróun húsnæðisverðs í aðildarríkjum sínum og hafi nú síðast í júní gefið út viðvörun þess efnis að hrun á fasteignamörkuðum víðs vegar gæti verið í farvatninu ef ekki verði gripið í taumana. Í því samhengi nefnir sjóðurinn meðal annars Kanada, Noreg, Svíþjóð og Bretland.

„Ekki þótti brýnt að senda Íslandi, Spáni, Írlandi né Bandaríkjunum slík varnaðarorð en þau ríki eru vafalaust þekktustu dæmin um bóluhagkerfi er fóru illa þegar fasteignaverð hrundi í aðdraganda fjármálakreppunnar,“ segir greiningardeildin.

Hún ber saman þróun fasteignaverðs hér á landi við þróunina í þeim ríkjum þar sem hætta er á bólu „Sé litið til nafnverðshækkunar fasteignaverðs á síðasta ári eru aðeins Bandaríkin sem státa af meiri hækkun en Ísland. Vert er að taka það fram að gögn fyrir Ísland byggja á fasteignaverði á öllu landinu og því hækkunin ívið minni heldur en ef miðað væri eingöngu við höfuðborgarsvæðið. Ljóst er að bæði hér á landi og í Bandaríkjunum hafa fasteignamarkaðir náð nokkuð öruggri viðspyrnu, öfugt við á Spáni og Írlandi.

Þrátt fyrir mikla nafnverðshækkun hefur raunverð fasteigna á Íslandi hreyfst lítið og hækkaði það aðeins um 4% á milli áranna 2010 og 2013. Þróunin er ekki úr takti við reynslu Bandaríkjanna en þar hefur þó hækkunin verið nokkuð meiri og yfir skemmri tíma.

Spánn og Írland eru aftur á móti ennþá í lækkunarfasa. Þau lönd sem AGS sendi nýlega varnarorð til upplifðu litla lækkun raunverðs í kjölfar fjármálakreppunnar, að Bretlandi undanskildu. Kanada og Noregur skera sig nokkuð úr en í báðum þessum löndum hefur raunverð fasteigna hækkað hressilega frá árinu 2009, eða um 16% og 21% hvort um sig, á meðan Svíþjóð hefur dregist nokkuð aftur úr,“ segir jafnframt í umfjöllun greiningardeildarinnar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK