Sporni ekki gegn þróun deilihagkerfisins

Með áframhaldandi þróun deilihagkerfisins verður nýtingin á samgöngumannvirkjum betri en …
Með áframhaldandi þróun deilihagkerfisins verður nýtingin á samgöngumannvirkjum betri en ella. mbl.is/Ómar

Deilihagkerfið er komið til að vera, að mati Gunnars Haraldssonar, forstöðumanns Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands. Hann segir að stjórnvöld eigi alls ekki að líta á framþróun þess sem ógn og reyna að sporna gegn henni. Það gæti verið afar varhugavert. Fátt bendi til annars en að deilihagkerfið muni halda áfram að vaxa og dafna.

Deilihagkerfið, eða The sharing economy eins og það kallast á ensku, hefur vaxið ört á undanförnum árum. Í hagkerfinu fær fólk kjörið tækifæri til að samnýta eigur sínar, eins og til dæmis bifreiðar og húsnæði, með hver öðrum. Með þeim hætti næst fram betri nýting á auðlindum, mannafli og framleiðslutækjum.

Birtingarmyndir deilihagkerfisins eru ólíkar. Á hverri nótt gista til að mynda nokkur hundruð þúsund manns heima hjá einhverjum öðrum - í gegnum leiguvefinn Airbnb. Vefurinn gerir fólki kleift að leigja ferðamönnum herbergi til skamms tíma, milliliðalaust. Til gamans má geta að auglýstar íbúðir í Reykjavík á vefnum eru í heild sinni 1.346 og hefur þeim fjölgað um 37% frá því í fyrra.

Leigu- og lúxusbílaþjónustan Uber hefur einnig slegið í gegn en í fjölmörgum stórborgum eru slíkar þjónustur farnar að taka við af hefðbundnum leigubílaþjónustum. Fólk sækir sér einfaldlega smáforrit í símann og pantar bíl með einum smelli. Bíllinn kemur svo innan stundar.

Nýtum framleiðslutækin betur

Gunnar segir í samtali við mbl.is að menn hafi lengi furðað sig á því af hverju tæknibyltingin, þá fyrst og fremst tölvutæknin, hafi ekki leitt til enn meiri aukningar í framleiðni í hagkerfum heimsins en raun ber vitni.

„En nú fara saman alls konar tækniframfarir sem hafa áhrif á öll samskipti. Það er von til þess - ef svo fer fram sem horfir - að ris deilihagkerfisins muni leiða til gríðarmikillar aukningar í framleiðni. Ástæðan er einfaldlega sú að við nýtum framleiðslutækin, svo sem hús, bíla og allt mögulegt, betur með því að deila þeim með öðrum,” segir hann.

Fyrr í vikunni greindi Morgunblaðið frá því að nokkrir ungir frumkvöðlar hefðu sett á stofn bílaleigumiðlunina Caritas.is, þar sem bifreiðaeigendum gefst kostur á að leigja bílana sína út bæði til ferðamanna og annarra Íslendinga. „Markmiðið með þessu er að fólk geti samnýtt bílana sína betur,“ sagði Vignir Már Lýðsson, einn af stofnendum Caritas.is.

Gunnar segir að þetta framtak sé enn einn liður í þróuninni sem er að eiga sér stað. „Bíllinn minn stendur að minnsta kosti óhreyfður stærstan hluta dagsins. Það væri vel hægt að auka nýtinguna á honum, svo dæmi sé tekið. Það sama gildir um húsnæði og margt fleira. Þannig að frá hagfræðilegum sjónarhóli felast mikil tækifæri í deilihagkerfinu sem leiða til betri nýtingar á tækjum, tólum, vinnu, tíma fólks og svo framvegis,“ segir Gunnar.

Rætur að rekja til tækniframfara

En hvað skýrir þessar miklu breytingar?

Gunnar segir að þær séu allar tæknilegs eðlis, felist í örum tæknibreytingum, en eigi ekki rætur sínar að rekja til breytinga á lögum eða reglugerðum. „Maður sér frekar laga- og reglugerðaumhverfið sem heftandi þátt, frekar en að það ýti undir þessa þróun, þó svo að ég ætli ekki að fullyrða neitt um það,” útskýrir hann.

„Þetta er eitthvað sem á rætur sínar að rekja til tæknibreytinga og þeirra möguleika sem breytingarnar hafa í för með sér. Allt í einu fór það, sem áður var erfitt, að verða mögulegt.”

Það er ljóst að deilihagkerfið hefur dregið úr kostnaði, enda er engin þörf á milliliðum þegar fólk getur samnýtt eigur sínar. Gunnar segir að það sé þjóðhagslega hagkvæmt, þó svo að einhverjir muni að sjálfsögðu tapa á því þegar önnur starfsemi, sem á undir högg að sækja, hverfur. „Maður getur rétt svo ímyndað sér að ef þróunin heldur áfram, og starfsemin færist öll yfir á netið, þá kveðjum við um leið þennan gamla tíma, þar sem bílaleigur halda til dæmis úti skrifstofu og hafa starfsfólk til að taka á móti kúnnum. Þetta getur allt breyst,“ segir Gunnar.

Fækkar bílastæðum

Það eru margir sem sjá þessa þróun deilihagkerfisins sem ógn. Víða um heim telja leigubílsstjórar að unnið sé gegn hagsmunum stéttarinnar. Í nokkrum evrópskum stórborgum hafa leigubílstjórar til að mynda staðið fyrir mótmælum gegn Uber-forritinu. Þá hafa fjölmargir hóteleigendur gagnrýnt kerfið harðlega, enda óttast þeir aukna samkeppni frá vefnum Airbnb. Enn standa því ljón í veginum.

Gunnar segir að vaxandi hlutur deilihagkerfisins geti haft mikil áhrif á hið opinbera. „Hið opinbera, bæði sveitarfélög og ríkið, þarf að meta það hvaða áhrif þessi þróun mun hafa á til dæmis þörfina fyrir samgöngumannvirki. Með áframhaldandi þróun verður nýtingin á þeim auðvitað betri en ella. Það verður til að mynda minni þörf á því að byggja vegi. Það sama gildir um húsnæðismarkaðinn,” segir hann.

Það má einnig ímynda sér að með tíð og tíma verði þörf á mun færri bílastæðum, enda fer samnýting á bílaflotanum vaxandi. Stór og dýr landssvæði fara undir bílastæði sem vel mætti nýta undir aðra starfsemi.

Sporni ekki gegn þróuninni

„Hið opinbera þarf að minnsta kosti að fara að huga að því hvaða áhrif þessi þróun mun hafa. Það þarf að skoða þessa hluti nánar,” að mati Gunnars. Mikilvægt sé þó að stjórnvöld reyni ekki að sporna gegn þessari þróun með einhverjum hætti. Það gæti verið afar varhugavert.

„Þetta er frekar spurning um hvernig hið opinbera eigi að bregðast við, ef það þarf yfir höfuð að bregðast við, sem er alls ekki sjálfgefið.“

En er deilihagkerfið komið til að vera?

„Já, ég held að það sé engin spurning um það. Og við erum kannski núna að sjá fyrstu áhrifin. Ég held að þetta eigi eftir að verða mun algengara og víðtækara og ná til fleiri þátta en við áttum okkur á. Við eigum líka eftir að sjá hvaða möguleikar skapast með tilkomu sjálfkeyrðu bílanna. Það verður heillandi og áhugavert að sjá hvaða áhrif þeir munu hafa.

Ég tel að minnsta kosti að deilihagkerfið sé komið til að vera nema þá að unnið verði skipulega gegn því. En ef hagkerfinu verður leyft að þróast, þá er ekkert sem bendir til annars en að það haldi áfram að vaxa og dafna.”

Gunnar Haraldsson, forstöðumaður Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands.
Gunnar Haraldsson, forstöðumaður Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands. mbl.is/Heiðar
Fjöldi íbúða í Reykjavík eru til leigu á vefn­um Airbnb, …
Fjöldi íbúða í Reykjavík eru til leigu á vefn­um Airbnb, bæði íbúðir sem ein­stak­ling­ar leigja út sem og stærri leigu­fé­lög. mbl.is/Styrmir Kári
Mörg stéttarfélög leigubílsstjóra óttast aukna samkeppni frá þjónustum á borð …
Mörg stéttarfélög leigubílsstjóra óttast aukna samkeppni frá þjónustum á borð við Uber. AFP
Í mörgum stórborgum heimsins eru þjónustur eins og Uber farnar …
Í mörgum stórborgum heimsins eru þjónustur eins og Uber farnar að taka við af hefðbundnum leigubílaþjónustum. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK