Sjö stjórnendur WOW hætt störfum

WOW air.
WOW air.

Starfsmannaveltan hjá flugfélaginu WOW air hefur verið nokkuð hröð undanfarin ár. Þannig hafa sjö framkvæmdastjórar hjá félaginu látið af störfum frá því að félagið hóf fyrst áætlunarflug sumarið 2012. Flugfélagið var stofnað í nóvember árið 2011.

Vefurinn Túristi.is greindi frá því í gær að þeim Tómasi Ingasyni og Arnar Má Arnþórssyni hafi verið sagt upp störfum. Tómas var forstöðurmaður viðskiptaþróunarsviðs WOW air og hóf störf í byrjun árs. Arnar Már tók við starfi framkvæmdastjóra sölu- og markaðssviðs í maí síðastliðnum.

Í maímánuði lét Linda Jóhannsdóttir, þáverandi framkvæmdastjóri fjármálasviðs WOW, af störfum, en hún hafði starfað hjá félaginu síðan á árinu 2012. Guðrún Valdimarsdóttir, fyrrum aðstoðarkona Skúla Mogensen, forstjóra og stofnanda WOW, tók við starfinu.

Þá hætti jafnframt Inga Birna Ragnarsdóttir, fyrrverandi framkvæmdastjóri flugfélagsins, í mars síðastliðnum.

Örum vexti fylgja breytingar

Í febrúar lét markaðsstjóri flugfélagsins, Ágústa Hrund Steinarsdóttir, af störfum og þá greindi Morgunblaðið enn fremur frá því að verið væri að skipta um auglýsingastofu. Guðrún Einarsdóttir, fyrrverandi starfsmannastjóri, hætti einnig störfum í desember í fyrra, en hún hafði þá starfað hjá fyrirtækinu í um átta mánuði.

Þá sagði Guðmundur Arnar Guðmundsson upp störfum sem markaðsstjóri flugfélagsins í apríl í fyrra. Hann hóf upphaflega störf hjá WOW air í janúar árið 2012.

Upplýsingafulltrúi WOW sagðist í samtali við mbl.is ekki geta tjáð sig um málefni einstakra starfsmanna.

Í samtali við Morgunblaðið í febrúarmánuði sagði Skúli Mogensen að starfsemi fyrirtækisins hafi farið ört vaxandi frá stofnun þess í nóvember 2011 og að miklum vexti fylgdi áherslu- og skipulagsbreytingar. Velta félagsins hefði aukist úr 2,5 milljörðum króna árið 2012 í tíu milljarða árið 2013 og á sama tíma hefðu starfsmönnum fjölgað jafnt og þétt. Í janúar 2013 störfuðu 93 starfsmenn hjá félaginu en í janúar 2014 hafi þeir verið 175 manns. Það er 88% aukning á milli ára.

Skúli Mogensen, stofnandi og forstjóri WOW Air.
Skúli Mogensen, stofnandi og forstjóri WOW Air. mbl.is/Ómar
WOW air var stofnað í nóvember 2011 og fór í …
WOW air var stofnað í nóvember 2011 og fór í jómfrúarflug sitt til Parísar 31. maí 2012. mbl.is/Rósa Braga
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK