Kröfur framseldar til innheimtufyrirtækja

Landsbankinn hefur framselt innheimtufyrirtækjum kröfur til innheimtu fyrir hönd bankans. Það hafa Íslandsbanki og MP banki ekki gert. Þá hafa viðskiptabankarnir merkt viðskiptamenn með auðkenni meðan á greiðsluaðlögun stendur. Að henni lokinni séu afskrifaðar kröfur vistaðar varanlega í kerfum bankanna. Í tilviki Íslandsbanka er skráningu eytt eftir sjö ár.

Þetta er á meðal þess sem fram kemur í svari Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra við fyrirspurn Elsu Láru Arnardóttur, þingmanns Framsóknarflokksins, um skráningu viðskiptasögu hjá fjármálastofnunum.

Óskað var eftir svörum frá Arion banka, Íslandsbanka, Landsbanka, MP banka, Kreditkortum, Gjaldheimtunni, Borgun, Momentum, Motus og Valitor við fyrirspurninni. Viðbrögð bárust ekki frá Gjaldheimtunni, Momentum eða Valitor og Arion banki sagðist ekki telja rétt að svara vegna þess að Alþingi gegni ekki eftirlitshlutverki gagnvart bankanum.

Þau svör sem bárust byggjast á upplýsingum frá Fjármálaeftirlitinu, auk upplýsinga frá þeim fjármálafyrirtækjum sem svöruðu.

Elsa Lára spurði hvort fjármálastofnanir haldi utan um skráningar á fjárhagslegri stöðu og viðskiptasögu einstaklinga, og ef svo væri, hvaða reglur giltu um slíkt?

Í svari ráðherra segir, að mismunandi sé eftir tegund fjármálastofnunar, t.d. hvort um sé að ræða viðskiptabanka, vátryggingafélag, verðbréfafyrirtæki eða annað, hversu ítarlegum upplýsingum um fjárhagslega stöðu og viðskiptasögu einstaklinga sé haldið til haga.

Almennt megi telja að allar fjármálastofnanir haldi utan um skráningar á viðskiptasögu viðskiptavina sinna og viðskiptabankar búi yfir upplýsingum um fjárhagslega stöðu einstakra viðskiptavina. Svör Landsbankans, Íslandsbanka og MP banka eru á þann veg.

Um meðferð slíkra upplýsinga gildi lög um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, en Persónuvernd fer með eftirlit með framkvæmd laganna og reglna setta á grundvelli þeirra.

Elsa Lára spurði hvernig einstaklingar væru skráðir hjá fjármálastofnunum.

Í svari ráðherra segir, að svör viðskiptabankanna hafi verið á þá leið að í viðskiptakerfum þeirra séu viðskiptamenn merktir með auðkenni meðan á greiðsluaðlögun standi. Að henni lokinni séu afskrifaðar kröfur vistaðar varanlega í kerfum bankanna. Í tilviki Íslandsbanka sé skráningu eytt eftir sjö ár.

Þá kemur fram, að Fjármálaeftirlitið hafi ekki athugað sérstaklega skráningu persónuupplýsinga á mismunandi stigum greiðsluaðlögunar hjá lánastofnunum en spurningarnar eigi ekki við um aðrar fjármálastofnanir. Vakin sé athygli á því að embætti umboðsmanns skuldara hafi umsjón með greiðsluaðlögun en Persónuvernd hafi eftirlit með skráningu persónuupplýsinga.

Elsa Lára spyr ennfremur, hvenær fyrndar kröfur séu felldar brott úr kerfum fjármálastofnana.

Í svarinu segir, að samkvæmt svörum viðskiptabankanna virðist almenn regla þeirra vera að fella kröfu úr kerfi bankans þegar hún hafi verið afskrifuð og innheimtu lýkur án árangurs.

Bent er á, að Fjármálaeftirlitið hafi ekki gert sértæka athugun á því hversu lengi sé haldið utan um afskrifaðar eða fyrndar kröfur í kerfum fjármálastofnana en Fjármálaeftirlitinu hafa í einhverjum tilvikum borist fyrirspurnir eða kvartanir vegna þessa og hafa erindin verið framsend til Persónuverndar sem hefur eftirlit með vinnslu og meðferð persónuupplýsinga.

Loks spyr Elsa Lára, hvort kröfur fjármálastofnana séu framseldar til innheimtufyrirtækja, og ef svo sé, að hvenær sé slíkum skráningum eytt úr kerfum.

„Íslandsbanki og MP banki hafa ekki framselt kröfur til innheimtufyrirtækja. Landsbankinn hefur framselt innheimtufyrirtækjum kröfur til innheimtu fyrir hönd bankans,“ segir í svarinu.

Þá kemur fram, að Fjármálaeftirlitið hafi ekki gert heildarúttekt á meðferð krafna hjá fjármálastofnunum á fjármálamarkaði en ljóst sé að slík meðferð kunni að vera mismunandi eftir tegund fjármálastofnunar, t.d. hvort um er að ræða viðskiptabanka, vátryggingafélag eða verðbréfafyrirtæki.

Vakin er athygli á því að skv. 2. mgr. 3. gr. innheimtulaga nr. 95/2008 er viðskiptabönkum, sparisjóðum, öðrum lánastofnunum og verðbréfafyrirtækjum heimilt að stunda innheimtu fyrir aðra án innheimtuleyfis. Áréttað er að um meðferð persónuupplýsinga gilda lög nr. 77/2000, um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, en Persónuvernd fer með eftirlit með framkvæmd laganna og reglna setta á grundvelli þeirra.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK