Eric Cantor var ekki lengi atvinnulaus

Eric Cantor
Eric Cantor AFP

Eric Cantor, fyrrverandi leiðtogi repúblikana í fulltrúadeild Bandaríkjaþings, var ekki lengi atvinnulaus en bandaríski fjárfestingarbankinn Moelis & Co. sendi frá sér tilkynningu í morgun um að Cantor hefði verið ráðinn til bankans.

Cantor tapaði fyrir nánast óþekktum frambjóðanda Teboðshreyfingarinnar í forkosningum flokksins í Virginíuríki í sumar.

Hagfræðiprófessorinn David Brat, sem hafði umtalsvert minni fjárráð í kosningabaráttu sinni en Cantor, hafði öruggan sigur og hlaut 56% atkvæða á móti 44% andstæðings síns. Cantor hafði af mörgum verið talinn líklegur til að taka við af John Boehner sem forseti fulltrúadeildarinnar, þar sem repúblikanar hafa meirihluta.

Samkvæmt tilkynningu frá Moelis & Co. verður Cantor varaformaður stjórnar bankans og framkvæmdastjóri. Hann tekur til starfa nú í vikunni samkvæmt frétt Wall Street Journal.

Samkvæmt frétt Wall Street Journal mun Cantor veita viðskiptavinum Moelis & Co. ráðgjöf varðandi yfirtökur og aðra samninga. Eins mun hann gegna mikilvægu hlutverki í að koma á laggirnar skrifstofu bankans í Washington.

Cantor, sem starfaði við fasteignasölu fjölskyldunnar áður en hann var kjörinn á þing, mun áfram búa í Virginíu þrátt fyrir að vera með skrifstofu í höfuðstöðvum bankans í New York.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK