Tap af rekstri WOW air á árinu 2013 nam 330 milljónum króna og nemur uppsafnað tap síðastliðinna tveggja ára yfir 1.100 milljónum króna. Eigið fé félagsins var 350 milljónir króna í árslok 2013, þrátt fyrir að hlutafé þess hafi verið aukið um 500 milljónir króna á því ári.
Hlutafé WOW air er allt í eigu Títans fjárfestingafélags ehf. sem er í eigu Skúla Mogensen, forstjóra og stofnanda félagsins. Hlutafé WOW air var aukið um 20 milljónir króna að nafnvirði á genginu 25 í nóvember síðastliðnum og nam því heildarfjárhæð aukningarinnar 500 milljónum króna.
Í fréttaskýringu um rekstur WOW í Morgunblaðinu í dag segir Skúli afkomu fyrstu sex mánuði ársins vera verri en stjórnendur félagsins höfðu gert ráð fyrir. „Allt útlit er hins vegar fyrir góða afkomu á seinni hluta ársins. Ljóst er að þriðji ársfjórðungur er sá besti í sögu félagsins bæði hvað varðar sætanýtingu, tekjur og afkomu.“