Seðlabanki Evrópu (ECB) hélt stýrivöxtum bankans óbreyttum við vaxtákvörðun í morgun og standa þeir þannig áfram í 0,05% eftir að hafa verið lækkaðir í síðasta mánuði. Þá var einnig tilkynnt að áætlun ECB um skuldabréfakaup til tveggja ára verður hrint í framkvæmd um miðjan mánuðinn.
Er þetta skýrt merki um að stýrivextir ECB verði áfram lágir á næstu tveimur árum að sögn Frank Oland, hagfræðings hjá danska seðlabankanum. Þetta kemur fram hjá Borsen. Þá sagði hann líklegt að ECB færi út í frekari aðgerðir en skuldabréfakaupin og þá líklega kaup á ríkisskuldabréfum.
Tilkynnt var um áætlunina í síðasta mánuði þar sem fram kom að bankinn myndi kaupa fjölbreytt safn af einföldum og gagnsæjum fjármálagerningum með tryggingum í undirliggjandi eignum, sem eru kröfur á hendur einkafyrirtækjum á evrusvæðinu utan fjármálageirans. Þetta mun gerast með kaupáætlun fyrir sértryggða fjármálagerninga (ABS).
Hefur þetta þegar haft jákvæð áhrif og veiktist evran gegn Bandaríkjadal skömmu eftir tilkynninguna, sem bæði stuðlar að hagvexti og verðbólgu sem nú er einungis 0,3% og hefur verið undir verðbólgumarkmiðum á undanförnum mánuðum.