Lága verðið komið til að vera

Skúli Mogense, framkvæmdarstjóri WOW Air.
Skúli Mogense, framkvæmdarstjóri WOW Air. Ómar Óskarsson

„Ég er alveg gríðarlega ánægður og stoltur að geta tilkynnt Norður Ameríku flugin okkar í dag. Með þessu lækka fargjöld allverulega til Bandaríkjanna og við fögnum því,“ segir Skúli Mogensen, framkvæmdarstjóri WOW Air í samtali við mbl.is. 

WOW Air hóf sölu á flugsætum til Norður Ameríku í dag og verður fyrsta flugið í lok mars á næsta ári. 

Að sögn Skúla er það búið að vera nokkuð langt ferli fyrir WOW Air að geta hafið flug til Norður Ameríku. „Ferlið er búið að vera rúmt ár. En þar af leiðandi höfum við náð að undirbúa okkur mjög vel og stilla öllu upp.“

WOW Air hóf sölu á flugum til Boston og Washington D.C. í morgun. Áætlunarflug til Boston hefst 27. mars en 4. júní til Washington D.C.. 

Flogið verður fimm sinn­um í viku á Bost­on Log­an-flug­völl og fjór­um sinn­um í viku á Baltimore-Washingt­on-flug­völl. Flogið verður allt árið til Bost­on en flug til Washingt­on D.C. verður árstíðabundið til að byrja með og verður flogið til loka októ­ber. 

Augljós þörf og vöntun

Skúli segir að viðbrögðin við sölunni í morgun hafi verið frábær. „Það er alveg ljóst að það var mikil þörf og vöntun á þessu, enda er búin að vera einokun á flugum til Norður Ameríku í raun alla tíð. ég er þakklátur að geta tekið þetta skref.“

WOW Air mun fljúga frá Keflavík til Boston og Washington klukkan 15:30 og eru farþegar að lenda í Boston klukkan 17:30 og 17:55 í Washington. Skúli segist mjög ánægður með brottfarartímana og að þeir bjóði upp á mikla möguleika. 

„Þessir tímar gera það að verkum að fólk lendir fyrr í Norður Ameríku og hefur þar af leiðandi mun meiri möguleika til þess að fljúga eitthvað áleiðis. Það er boðið upp á mjög góð tengiflug bæði frá Boston og Washington og sjáum við tækifæri í því. Jafnframt er með þessu hægt að njóta kvöldsins á áfangastað,“ segir Skúli.

Eru að skoða fleiri áfangastaði vestanhafs

Aðspurður um verð flugsætanna segir Skúli að það muni haldast lágt.

„Eins og á öðrum áfangastöðum erum við svo sannarlega að fara að bjóða mun lægri fargjöld til Norður Ameríku heldur en þekkst hefur til þessa. Lága verðið er komið til að vera.“

Skúli segir að WOW Air sé nú að skoða fleiri áfangastaði í Bandaríkjunum. „Algjörlega. Við erum rétt að byrja og við ætlum okkur að halda áfram að stækka bæði til austurs og vesturs.“

Bættu við sig flugvélum og starfsfólki

Flugfélagið hefur nú bætt við sig tveimur Airbus A321-vélum og verða þær 200 sæta og með gott sætabil og rúmbetri í alla staði að sögn Skúla. Jafnframt stendur til að bæta við starfsfólki. „ Við erum búin að fjölga fólki verulega á skrifstofunni og öllum undirbúningnum en við munu jafnframt þurfa að ráða fjölda flugmanna og flugliða í náinni framtíð,“ segir Skúli.

Aðspurður hvort að áætlunarferðum félagsins til Bandaríkjanna sé einnig beint að bandarískum neytendum segir Skúli svo vera. „Alveg tvímælalaust. Við munum nýta okkur nýjustu tækni og netið fyrst og fremst til þess að ná til okkar viðskipavina, eins og við höfum gert hingað til.“

En hvert er leyndarmál WOW Air? Hvernig getur flugfélagið boðið upp á flug á svona lágu verði?

Skúli segir ástæðuna samspil af nokkrum þáttum. „Við erum með bæði nýrri og sparneytnari flugvélar og miklu minni yfirbyggingu. Við erum ekki með skrifstofur út um allan heim, heldur seljum langmest milliliðalaust í gegnum wowair.is og það sparar okkur mjög mikil. Síðast en ekki síst erum við stundvísasta flugfélagið sem gerir það að verkum að það er mjög lítill tilfallandi kostnaður vegna tafa eða seinkana og það skilar sér í lægra fargjaldi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK