Lauf gafflar til sölu vestanhafs

Keppnisfjallahjól eins og á myndinni að ofan léttist um meira …
Keppnisfjallahjól eins og á myndinni að ofan léttist um meira en hálft kíló við að skipta út hefðbundnum demparagaffli fyrir Lauf gaffal. Mynd/Lauf Forks

Lauf Forks, hefur undirritað samning við dreifingarfyrirtækið QBP, eða Quality Bicycle Products, um dreifingu á vörum Lauf í Bandaríkjunum, Kanada, Mexíkó og Mið-Ameríku. QBP er stærsti dreifingaraðili hjólavarnings í heiminum, en þeir selja hjólavarning til yfir 5000 hjólaverslana.

Rúnar Ómarsson, yfirmaður sölumála hjá Lauf, segir samninginn vera gríðarlega stóran áfanganga fyrir fyrirtækið. „Við höfðum áður gert dreifingarsamninga á ýmsum markaðssvæðum, en hér með höfum við hakað við stærsta boxið; Norður Ameríku. Nú geta verslanir á lykilmarkaðssvæðum tekið Lauf gaffla til sölu á afar einfaldan, skjótan og hagkvæman hátt. Það er ekki bara það að QBP opni okkur dyr inn á mikilvæga markaði, heldur felst gríðarleg viðurkenning í því að vinna með þessu leiðandi fyrirtæki. Samningurinn er mikill gæðastimpill fyrir Lauf og opnar þannig inn á ýmis tækifæri í framhaldinu; aukna sölu á núverandi vöruframboði, sem og möguleikann á því að koma nýjum vörum í góða dreifingu,“ segir hann.

Framandi hjólagaffall

Samningurinn var gerður í kjölfar þáttöku Lauf í tveimur stærstu vörusýningum hjólabransans nú í haust; Eurobike í Þýskalandi og Interbike í Bandaríkjunum. Þar gafst starfsmönnum QBP færi á að prófa hjólagaffal Lauf ítarlega og þannig sannfærast um að varan ætti erindi í vöruframboð sitt.

Að sögn Benedikts Skúlasonar, forstjóra Lauf, er einmitt ákaflega mikilvægt fyrir fyrirtækið að sem flestir hafi færi á að prófa vörur þess. „Við erum að bjóða uppá ansi framandi hjólagaffal sem menn eiga við fyrstu sýn erfitt með að ímynda sér að virki almennilega. Það kemur ekkert í staðin fyrir það að menn prófi gaffalinn. Þess vegna var hrikalega gaman að upplifa það á þessum vörusýningum þegar menn fengu lánuð hjá okkur hjól með Lauf gaffli og sannfærðust þannig um virkni gaffalsins. Það stendur okkur einna helst fyrir þrifum í augnablikinu að það hafa ekki nægjanlega margir fengið að prófa gafflana okkar, þetta mun breytast með þeim dreifingarsamningum sem við höfum gert í kjölfar vörusýninganna í haust,“ segir Benedikt.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK