Eini aldurshópurinn með neikvæða eiginfjárstöðu, þ.e. fólk á aldrinum 25 til 35 ára, fær einungis um 10 prósent skuldaleiðréttingarinnar. Eru það einkum eldri hópar með mun betri eiginfjárstöðu sem njóta lækkunarinnar og er því líklegt að töluverður hluti aukins veðrýmis vegna leiðréttingarinnar verði nýttur til aukinnar neyslu. Strangari reglur varðandi greiðslumat neytendalána gætu þó vegið á móti aukningu almennra neytendalána.
Þetta er á meðal þess sem fram kemur í Þjóðhag, árlegu riti Hagfræðideildar Landsbanka Íslands, sem kom út í dag.
Alls eiga rúmlega 90 þúsund einstaklingar von á því að lán þeirra lækki frá og með áramótum og að greiðslubyrði minnki. Aðgerðin bætir eiginfjárstöðu heimilanna sem hefur í för með sér að svigrúm skapast til aukinnar skuldsetningar, t.d. til að fjármagna kaup á varanlegum neysluvörum. Mánaðarleg greiðslubyrði margra þeirra sem njóta skuldaniðurfærslunnar lækkar þó tiltölulega lítið og eykur það líkur á að það fé fari í aukna einkaneyslu fremur en sparnað.
Bent er á að þekkt sé að fólk byrji strax að auka útgjöld sín þegar von sé á auknum tekjum og gæti hluti aukinnar einkaneyslu því verið kominn fram nú þegar en það kann að skýra að hluta til kröftugan vöxt einkaneyslunnar á fyrri hluta ársins. Þó má ætla að aðgerðirnar hafi sérstaklega mikil áhrif í upphafi næsta árs þegar við bætast áhrif af niðurfellingu vörugjalda.
Ekki er talið að áformaðar breytingar á virðisaukaskattkerfinu hafi mikil áhrif á kaup á matvörum og er ekki búist við miklum áhrifum af völdum þeirrar aðgerðar á heildarneysluna.
Á spátímabilinu, þ.e. fram til ársins 2017, er búist við því að kaupmáttur launa aukist í heild um 8,7% og það er ein aðalforsenda aukinnar neyslu til lengri tíma litið. Samkvæmt spánni mun kaupmáttur vaxa um 3,0% árið 2015, 2,9% árið 2016 og 2,6% árið 2017.