Eftirlíking af Fuzzy í Rammagerðinni

Fuzzy kollarnir hafa verið framleiddir frá árinu 1970. Eftirlíkingar hafa …
Fuzzy kollarnir hafa verið framleiddir frá árinu 1970. Eftirlíkingar hafa nokkrum sinnum skotið upp kollinum. Mynd af heimasíðu Fuzzy

„Ég talaði við Rammagerðina og stólarnir voru teknir út í viku eða mánuð en nú er þetta komið aftur í búðina,“ segir Sigurður Már Helgason, hönnuður Fuzzy stólsins. Hann segir eftirlíkingar af stólnum vera seldar í Rammagerðinni og þegar hann benti framleiðanda þeirra á líkindin svaraði hann með skætingi.

„Ég búinn að tala tvisvar sinnum við manninn sem er að framleiða þetta og hann var bara með stæla og benti á að þrír fætur væru undir stólnum hans, en ekki fjórir líkt og á mínum. En hann er að stela hugmyndinni að útlitinu og að vinna með gæruna sem skapar útlit stólsins,“ segir Sigurður.

Aðspurður hvort hann hyggist leita réttar síns vegna málsins segist hann einfaldlega ekki hafa haft til þess tíma.

Framleiddur í 44 ár

Sigurður hannaði og smíðaði fyrsta Fuzzy stólinn árið 1970 en hann er lítill 
kollur með sútaðri lambsgæru með 
ullinni eins og hún kemur af kindinni.  
Fætur eru renndir í líki vatnsdropa og er hver og einn Fuzzy kollur er einstakur. Fuzzy kollurinn hefur farið víða og hefur tekið þátt hinum ýmsu hönnunarsýningum bæði hér heima og erlendis en Sigurður býr ennþá til stólana í bílskúrnum heima hjá sér. 

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Sigurður hefur rekist á eftirlíkingar Fuzzy stólsins en hann segir þær einnig vera seldar í hönnunarverslun á horni Klapparstígs og Grettisgötu. Sigurður benti starfsmönnum verslunarinnar á líkindin en stólarnir voru ekki teknir úr sölu.

Eftirlíkingar víða

Þá skaut svipaður stóll einnig upp kollinum í Danmörku á árinu 2012. Sá var kallaður „Troll stool“ og framleiddur af Lop Furniture. Hönnuðurinn tók stólinn hins vegar úr sölu eftir að Sigurður skrifaði honum bréf um málið. Þá veit Sigurður einnig til þess að færeyskur fjárbóndi sé að framleiða stóla í sama stíl. 

Rammagerðin er í eigu 66°N en ekki fengust svör frá fyrirtækinu við vinnslu fréttarinnar.

Sigurður Már smíðar kollana í bílskúrnum heima.
Sigurður Már smíðar kollana í bílskúrnum heima. Mynd af heimasíðu Fuzzy
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK