Starfsmenn á vegum BBC villtu sér á heimildir og fengu störf í verksmiðju sem framleiðir íhluti fyrir Apple í Kína þar sem iPhone 6 síminn er framleiddur. Þeir notuðust við faldar myndavélar og mynduðu slæmar vinnuaðstæður þar sem starfsmenn sofnuðu við færiböndin á löngum vöktum.
Apple sætti mikilli gagnrýni á árinu 2010 eftir að fjórtán starfsmenn í stærstu verksmiðju þeirra, Foxconn í Kína, frömdu sjálfsmorð. Í kjölfarið setti Apple nýjar reglur í verksmiðjum sínum þar sem kveðið var á um réttindi starfsmanna. Fréttamenn BBC komust hins vegar að því að reglunum er ekki fylgt. Reglur er varða auðkenniskort starfsmanna, húsnæðiskost þeirra, fundarhöld og lágmarksaldur voru brotnar. Þá á yfirvinna að vera valkvæð samkvæmt reglunum en enginn fréttamannanna fékk um það valið hvort hann tæki að sér yfirvinnu.
Einn fréttamaðurinn þurfti að vinna 18 daga í röð þrátt fyrir að hafa ítrekað beðið um frídag. Þá sagði annar fréttamaður að lengsta vaktin hans hefði staðið í 16 klukkustundir. Sagðist hann ekki hafa getað hreyft sig af þreytu að vaktinni lokinni. „Jafnvel þó að ég væri svangur gat ég ekki staðið upp til þess að borða. Mig langaði bara til þess að leggjast niður og hvílast. Ég gat þá ekki sofið á næturnar vegna álagsins,“ segir hann.
Apple neitaði BBC um viðtal í kjölfar fréttarinnar en sendi frá sér yfirlýsingu sem segir að ekkert annað fyrirtæki leggi sig betur fram en Apple við að tryggja sanngjarnar og öruggar vinnuaðstæður. Í yfirlýsingunni segir að árangur hafi náðst í verksmiðjunum en að vinnu að bættum kjörum sé þó ekki lokið. Þá sagði að algengt væri að starfsmenn legðu sig í pásum en að öll gögn um að þeir væru að sofna við vinnunna yrðu skoðuð.
Fréttamennirnir fóru þá einnig til eyjunnar Bangka í Indónesíu þar sem smáfyrirtæki sjá um safna tini sem notað er í málmblönduna í Apple símum. Þar fundu þeir 12 ára gamlan dreng að vinnu sem sagðist óttast skriðuföll við vinnuna en umhverfið er talið sérstaklega hættulegt fyrir námuverkamenn þar sem slíkt er nokkuð algengt.