Olíufélögin taka hluta verðlækkunar

Íslendingar setja um 340 milljón lítra af eldsneyti á bíla …
Íslendingar setja um 340 milljón lítra af eldsneyti á bíla sína. Hækkun á álagi olíufélaganna um eina krónu þýðir því um 340 milljón hærri kostnaður. Ef álagið verður áfram 5-6 krónum hærra en síðasta árið, þá nemur hækkunin um 1,7-2 milljörðum. mbl.is/afp

Eldsneytisverð hér á landi hefur síðustu mánuði lækkað um tæplega 40 krónur á hvern lítra eða um 15%. Þetta stafar af rúmlega 36% lækkun olíu á heimsmarkaði, en styrking Bandaríkjadals gagnvart krónunni hefur unnið gegn enn frekari lækkun. Þótt flestir fagni eflaust minnkandi útgjöldum og minna gjaldeyrisútflæði virðast olíufyrirtækin taka til sín nokkurn hlut lækkunarinnar þannig að hún skilar sér ekki að fullu út í verðlag til almennings.

Álag olíufélaganna hækkað um 5-6 krónur þrátt fyrir mikla lækkun

Félag íslenskra bifreiðaeigenda (FÍB) hefur undanfarin ár tekið saman tölur um eldsneytisverð og álögur olíufélaganna. Runólfur Ólafsson, framkvæmdastjóri FÍB segir í samtali við mbl.is að ljóst sé að þótt útsöluverð fari lækkandi séu olíufélögin að taka meira í sinn hlut nú en fyrir nokkrum mánuðum. Hann segir engar forsendur fyrir þessari hækkun á hlut olíufélaganna, sérstaklega í ljósi þess að stór útgjaldaliður þeirra sé vegna flutnings og lækkandi olíuverð ætti að lækka þann kostnaðarlið.

Á þessu ári fór olíuverð á heimsmarkaði hæst í júní en hefur síðan lækkað um meira en 36%. Runólfur segir að þá hafi uppreiknað verð á heimsmarkaði í krónum talið verið 89,60 krónur á hvern lítra. Á miðvikudaginn í þessari viku var verðið komið niður í 57,50 krónur og síðan þá hefur það lækkað enn frekar.

Ekki er þó hægt að miða bara við þessa tölu, heldur þarf að gera ráð fyrir sköttum hér á landi. Þegar þeir hafa verið dregnir frá stendur eftir flutningur og annar kostnaður olíufélaganna. Þessi álagning var að meðaltali 38,10 króna frá september í fyrra til september á þessu ári.

Í október fór eldsneytisverð hér á landi að lækka í kjölfar lækkandi verðs á heimsmarkaði. Samkvæmt tölum FÍB var meðalálagning olíufélaganna í september 39,58 krónur á hvern lítra, en í október var hún komin upp í 41,50 krónur. Aðeins einu sinni frá árinu 2005 hafði álag á bensín farið yfir 40 krónu markið áður. Það var í mars í fyrra, en strax í næsta mánuði lækkaði álagið aftur og hélst undir 40 krónum þangað til í október síðastliðinn. Í nóvember hélst álag félaganna enn yfir þessu marki og var 41,03 krónur. Fyrstu tvær vikurnar núna í desember var svo hlutur olíufélaganna af hverjum lítra 44,83 krónur og hefur það aldrei verið svo hátt áður.

Aukin álagning allt að 2 milljarðar á ársgrundvelli

Svipaða sögu er að segja með dísilolíu, en álag olíufélaganna fyrstu tvær vikurnar í desember var 45,45 krónur á hvern lítra. Hafði álagið fyrir október aldrei farið yfir 41 krónu.

Runólfur bendir á að hér á landi séu árlega seldir 340 milljón lítra af eldsneyti á bíla landsmanna. Hver króna í aukna álagningu þýðir því 340 milljónir auk virðisaukaskatts og því er um verulegar fjárhæðir að ræða. Ef álagning desembersmánaðar helst áfram er því um að ræða 1,7 til 2 milljarða aukalega í álögur fyrir bílaflota landsmanna á árs grundvelli.

Runólfur segist ekki taka afstöðu til þess hvort álagið sé hátt eða lágt hér á landi, en í Svíþjóð er það þó aðeins um helmingur þess sem gerist hér á landi. Hann segir þó umhverfið allt öðruvísi og flutningar til og frá landinu kosti sitt. Það veki þó upp spurningar þegar álag félaganna hækki hjá öllum á sama tíma og stór kostnaðarliður við flutninga lækki gífurlega.

Oft fljótari að hækka en að lækka

Þá nefnir hann einnig að olíufélögin séu oftast fljótari til að hækka verð en að lækka það þegar heimsmarkaðsverð breytist. Þetta hafi rannsóknir sem unnar hafi verið við háskóla landsins sýnt fram á. Hann segir viðbrögð olíufyrirtækjanna ekki hafa verið mikil hingað til. „Einu móttökin frá fyrirtækjum á markaði hér er að þetta sé mýta, en engar tölulegar staðreyndir,“ segir Runólfur.

Álögur olíufélaganna hafa hækkað talsvert á síðustu þremur mánuðum þrátt …
Álögur olíufélaganna hafa hækkað talsvert á síðustu þremur mánuðum þrátt fyrir að olíuverð hafi farið lækkandi og þar af leiðandi stór kostnaðarliður í rekstir félaganna þegar kemur að flutningi. mbl.is/Arnaldur Halldórsson
Heimsmarkaðsverð á olíu hefur lækkað um rúmlega 36% á síðustu …
Heimsmarkaðsverð á olíu hefur lækkað um rúmlega 36% á síðustu mánuðum. Hækkun Bandaríkjadals hefur vegið upp á móti þeirri lækkun. mbl.is/Hjörtur
Útsöluverð mínus kostnaðarverð sýnir álagningu olíufélaganna og er hér sýnd …
Útsöluverð mínus kostnaðarverð sýnir álagningu olíufélaganna og er hér sýnd á hægri ás. Mynd/Félag íslenskra bifreiðaeigenda
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK