Hættur að fjárfesta í bili

Jon Von Tetzchner
Jon Von Tetzchner Þórður

Jón von Tetzchner hefur fjárfest á Íslandi fyrir um þrjá milljarða króna á síðastliðnum árum og þar af fyrir nokkur hundruð milljónir í sprotafyrirtækjum. Hann segist þó hættur nýfjárfestingum í bili þar sem hann hafi einfaldlega ekki tíma í fleiri verkefni.

„Þegar ég fjárfesti í fyrirtækjum er ég líka að segja að ég ætli að nota tíma og orku í þau og gera mig aðgengilegan,“ segir Jón. „Núna á ég í um tíu fyrirtækjum en auk þeirra á Íslandi á ég einnig í fyrirtækjum í Noregi og Bandaríkjunum og ræð ekki við mikið meira án þess að þetta fari að verða of þungt,“ segir Jón.

Leitar eftir öðruvísi hugmyndum

Hann segist leita eftir hugmyndum sem eru skemmtilega öðruvísi en meðal íslenskra fyrirtækja sem Jón hefur fjárfest í eru OZ, sem hefur þróað nýja aðferðafræði við að dreifa sjónvarpsútsendingu í háskerpu á netinu, SmartMedia, sem selur og hýsir vefverslanir, fjarskiptafyrirtækið Hringdu, leitarvélinni Dohop, Spyr, mjólkurvinnslan Arna og Greitt, sem er þjónusta sem býður lausnir sem einfalda kaupendum að kaupa og seljendum að selja á netinu. Í Noregi á hann í nýsköpunarfyrirtækinu We want to know sem býr til snjallsímaleikinn DragonBox sem kennir börnum algebru. 

Jón er hálfur Íslendingur og stofnaði norska hugbúnaðarfyrirtækið Opera og byggði vefskoðara fyrirtækisins frá grunni. Hann hætti hins vegar sem forstjóri fyrirtækisins árið 2010 þar sem hann deildi að eigin sögn ekki sömu framtíðarsýn og ráðandi hluthafar. Hann ólst upp á Seltjarnarnesinu og segir Ísland því toga í sig. „Ég hef tilfinningar gagnvart landi og þjóð,“ segir hann og bætir við að fáir hafi verið að fjárfesta í sprotafyrirtækjum á Íslandi þegar hann hóf að gera það á árunum eftir hrun. Fáir hafi setið um hugmyndirnar og því hafi verið úr mörgu að velja. Nú séu fleiri nýsköpunarsjóðir komnir til sögunnar og vonar Jón að hann hafi haft einhver áhrif á þá þróun.

Alltaf fullt á frumkvöðlasetrinu

Auk þess að hafa fjárfest í mörgum nýsköpunarfyrirtækjum opnaði hann frum­kvöðlaset­rið Innovation House á Eiðis­torgi fyrir um einu og hálfu ári síðan. Þar eru um tuttugu nýsköpunarfyrirtæki saman með aðstöðu í tæp­lega 800 fer­metra rými og segir Jón að markmiðið hafi ávallt verið að búa til öflugan og dýnamískan hóp frumkvöðla og „hjálpa þeim að hjálpa sér sjálf.“ Leigan er ódýr og segir Jón þetta ekki gert til gróða heldur njóti hann þess að stuðla að því að fyrirtækin komist á koppinn. „Ég held að það virki að vera í góðu umhverfi og með gott fólk í kringum sig,“ segir Jón.

Frá Innovation House á Eiðistorgi.
Frá Innovation House á Eiðistorgi. Rósa Braga
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK