Tekjur þeirra eignamestu á uppleið

Eftir hrun seldust lúxusúr ekki vel. Kippur hefur orðið í …
Eftir hrun seldust lúxusúr ekki vel. Kippur hefur orðið í sölunni nú. AFP

Tekju- og eignastaða landsmanna hefur batnað verulega frá hruni, en þá rýrnuðu eignir þeirra 5% sem mest áttu um 22% og hinna 95% um 26%. Skuldastaða þorra landsmanna hefur batnað og eru skuldir nú 43% minni en þær voru í árslok 2008 og eigið fé allra landsmanna hefur vaxið. Hlutdeild tekjuhæstu einstaklinga í heildartekjum landsmanna er svipuð á Íslandi og Norðurlöndum og hefur svo verið árin eftir fjármálakreppuna.

Fjármála- og efnahagsráðuneytið hefur tekið saman efni um tekjur og eignir landsmanna. Undanfarið hefur nokkuð verið rætt um þessi mál í kjölfar nýrrar skýrslu bresku hjálparsamtakanna Oxfam um skiptingu auðs. Teknar hafa verið saman upplýsingar um tekju- og eignamestu landsmennina og gerður samanburður, annars vegar milli 5% ríkasta hópsins og hinna 95% þjóðarinnar og hins vegar milli tekjuhæstu hópa samfélagsins og sömu hópa í öðrum löndum.

Athygli er vakin á því að í samantektinni er ekki tekið mið af skiptingu eigna og tekna eftir aldurshópum eða fjölskyldusamsetningu en það eru veigamiklir þættir við að skýra dreifingu tekna og eigna.

Eignastaða 95% þjóðarinnar dróst saman um 26%

Þegar eignir og skuldir 95% landsmanna á verðlagi ársins 2013 eru skoðaðar sést að eignastaða 95% þjóðarinnar hefur batnað eftir að hún dróst saman að raunvirði um 26% í fjármálakreppunni. Skuldastaða þorra landsmanna hefur batnað og eru skuldir nú 43% minni en þær voru í árslok 2008.

Eignir þeirra 5% landsmanna sem mest eiga minnkuðu um 22% við hrunið. Skuldastaða þessa hóps hefur einnig batnað síðan og skuldar hópurinn nú að 18% minna en við árslok 2008 að raunvirði.

Eigið fé landsmanna, hvort sem um ræðir þau 5% sem mest eiga eða aðra landsmenn, óx samhliða og mjög ört fram að hruni. Eigið fé óx meira hjá fámennari hópnum en hinum. Eigið fé minnkaði jafnframt meira við hrunið hjá 95% hópnum en hjá ríkustu 5%. Síðustu tvö árin hefur það þó í fyrsta sinn verið meira hjá stærri hópnum en hjá þeim 5% sem mest eiga.

Eigið fé er hér skilgreint sem allar eignir að frádregnum öllum skuldum. Eignir í hlutabréfum eru metnar á nafnvirði.

Um 200 fjölskyldur tilheyra þeim 0,1% hópi sem mest á, en fjöldinn var um 140 árið 1992. Hlutdeild þessa hóps í tekjum landsmanna var mikil, ekki síst árin fyrir fjármálakreppuna. Þetta gildir einkum um árið 2007. Eftir það féll hlutdeild hópsins í tekjum mjög mikið. Hlutdeild hópsins í eignum hafði meira en tvöfaldast frá árinu 1992 en hefur minnkað stöðugt eftir hrun. Hlutdeild þessa hóps í skuldum landsmanna óx minna en annarra árin fyrir hrun og hefur skuldastaðan batnað frá þessum tíma en hlutdeild í eigin fé óx mest.

Tekjur uxu hratt, lækkuðu svo en sækja nú í sig veðrið

Sé staða 5% eignamestu landsmannanna skoðuð kemur í ljós að tekjur þeirra uxu hratt sem hlutfall af heildartekjum landsmanna fram að hruni. Síðan lækkuðu þær verulega en sækja nú í sig veðrið. Hópurinn átti um fjórðung allra eigna fyrir hrun. Við hrunið minnkuðu eignir annarra landsmanna meira en eignir þessa hóps og því fóru eignir hans í yfir þriðjung heildareigna eftir hrun.

Hópurinn skuldaði 10% heildarskulda en þær hækkuðu hjá honum árin fyrir hrun. Frá þeim tíma hefur hlutdeild í skuldum stöðugt lækkað.

Eigið fé hópsins var um 40% alls eiginfjár fyrir hrun. Þegar eigið fé landsmanna í íbúðum dróst saman eftir hrunið fór eigið fé 5% hópsins langt yfir helming heildareiginfjár.

Ísland og önnur lönd

Við samanburð milli Íslands og annarra landa þarf að hafa í huga að hann er vandkvæðum bundinn, enda er gögnum um tekjudreifingu með þeirri nákvæmni sem finna má í íslensku gögnunum og þeim sem þarna eru sýnd um önnur lönd ekki  safnað  með samræmdum hætti af alþjóðastofnunum heldur eru þau fengin hjá mismunandi aðilum í hverju landi fyrir sig. Gögn um önnur lönd en Ísland eru hins vegar það efni sem notað hefur verið í fjölmiðlaumfjöllun undanfarinna daga, m.a. í tengslum við ráðstefnuna World Economic Forum í Davos í Sviss. Gögn um Ísland er ekki að finna í því efni sem til dæmis OXFAM hefur vakið athygli á.

Þau erlendu gögn sem ráðuneytið notaði til samanburðar við þróunina hér á landi sýna að hlutdeild einstaklinga í heildar eigin fé er svipuð á Íslandi og annars staðar á Norðurlöndunum. Ísland skar sig nokkuð úr á árunum fyrir hrun þegar hlutdeild hinna eignamestu óx hraðar hér. Sú hlutdeild hefur nú gengið til baka og sker Ísland sig ekki lengur úr hvað þetta varðar. Hvergi á Norðurlöndum, utan mögulega Danmerkur, eru nein teikn á loft um að þessi hópur taki til sín vaxandi hlutfall af eigin fé.

Eignahlutdeild eignamesta hópsins sveiflast ekki eins mikið og tekjurnar. Aðeins í Bretlandi fer eignahlutfall hans stöðugt vaxandi eftir fjármálakreppuna, og sama á einnig við um Danmörku.  Í Svíþjóð og Noregi hafa eignir eignamesta hópsins minnkað sem hlutfall af öllum eignum. Frá því að eigið fé var minnst eftir hrun hefur það vaxið hraðar hjá öðrum en þeim allra ríkustu á Íslandi.

mbl.is/Þorkell Þorkelsson
Um 200 fjölskyldur á Íslandi tilheyra þeim 0,1% hópi sem …
Um 200 fjölskyldur á Íslandi tilheyra þeim 0,1% hópi sem mest á. mbl.is/Golli
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK