Með verðtryggða mottu á leigunni

Gunnar Jósefsson, eigandi Laugarásvideo, snýr vörn í sókn og opnar …
Gunnar Jósefsson, eigandi Laugarásvideo, snýr vörn í sókn og opnar lágvöruverðsverslun í einu horni leigunnar. mbl.is/Árni Sæberg

Á meðan myndbandaleigur landsins leggja hver af annarri upp laupana snýr Gunnar Jósefsson, eigandi Laugarásvideo, vörn í sókn og opnar lágvöruverðsverslun í einu horni leigunnar. „Ég er síðasti móhíkaninn,“ segir Gunnar glettinn og fullyrðir að reksturinn gangi þokkalega.

Í versluninni á að vera hægt að nálgast allar helstu nauðsynjavörur, svo sem mjólk, brauð og sykur að sögn Gunnars. Hún mun heita „Lágmark“ og merki hennar verður fjórðungur af krónu.

Verslunin verður í horni Laugarásvideo þar sem áður voru Blue-Ray diskar og verður um sjötíu fermetrar að stærð. Þá segir Gunnar möguleika á að stækka verslunina enn frekar, ef vel gengur, með því að brjóta niður veggi þar fyrir aftan. „Ég er með sjoppuvörurnar og hví ekki að bæta þessu við,“ segir Gunnar og bætir við að hann hafi fundið fyrir áhuga hjá viðskiptavinum fyrir verslun sem þessari. Hann stefnir á að opna upp úr miðjum febrúar en vill þó engu lofa. 

Ekki dauður ennþá

Aðspurður um gengi myndbandaleigunnar segir hann reksturinn ganga þokkalega þó dagamunur sé þar á. „Vinur minn spurði um daginn hvort þetta væri ekki deyjandi bransi. Ég sagði að svo gæti vel verið, en benti honum á að ég væri ekki ennþá dauður og að það eina í stöðunni væri að gefa í,“ segir Gunnar. Hann segir fólk njóta þess að hafa val og eiga þess kost að geta farið út á leigu í stað þess að liggja í sófanum yfir Apple TV eða öðru. 

Þá bendir hann á að verðið hjá honum hafi haldist það sama frá árinu 1991 og það eina sem vaxi samhliða verðbólgunni sé yfirvaraskeggið hans. „Mottan mín er verðtryggð, hún bara vex og vex,“ segir Gunnar og hlær. 

Fjölbreytni er lykilatriði

Hann segir lykilinn vera að bjóða upp á fjölbreytt úrval og einblína ekki einungis á vinsælu myndirnar sem jafnframt má hlaða niður af Internetinu. „Ég er með allt frá myndum sem voru framleiddar í upphafi 20. aldarinnar til þeirra sem komu út í dag,“ segir hann og bætir við að heimildarmyndirnar njóti einnig mikilla vinsælda. Þá nefnir hann að um 32 þúsund titlar séu í boði í Laugarásvideo en einungis fjögur til fimm þúsund í VOD-inu (e. video on command) í sjónvarpinu.

„Jú, jú. Ég hef orðið var við samdrátt í bransanum. Það fækkar hjá öðrum en fjölgar hjá mér,“ segir Gunnar glettinn.

Gunnar Jósefsson, eigandi Laugarásvideo, um áfram leigja út myndbönd.
Gunnar Jósefsson, eigandi Laugarásvideo, um áfram leigja út myndbönd. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK